B-lið 3. flokks kvenna fór suður um liðna helgi

Stelpurnar í b liði 3. flokks kvenna spiluðu tvo leiki um helgina.
Á laugardagskvöldið spiluðu stelpurnar við Gróttu 2 á Seltjarnarnesinu. Leikurinn byrjaði heldur illa og komust Gróttu stelpur í full þægilega stöðu.

Staðan í hálfleik var 17-6 fyrir Gróttu2 og ljóst að seinni hálfleikurinn yrði erfiður fyrir KA/Þór stelpur. Þær sýndu þó gríðarlegan karakter í seinni hálfleik og spiluðu mun betri leik sem leiddi til „sigurs” í seinni hálfleik. 

Lokatölur voru 27-17 Gróttu2 í vil.

Eldsnemma á sunnudagsmorgni voru flestar KA/Þór stelpur mættar upp í Digranes. Ein hafði villst af leið og endað á Ásvöllum og kom hún því eilítið of seint upp í Digranes.

Leikurinn byrjaði vel og komust KA/Þór stelpur í 5-1 þar sem Ólöf Höskuldsdóttir hafði farið hamförum í vinstri skyttunni og skorað fyrstu fjögur mörk KA/Þórs. HK stelpur færðu vörnina framar sem virkaði full vel en mikill taugatitringur fór um norðanstelpur sem spiluðu seinni hluta fyrri hálfleiks hreint út sagt illa og hefðu þær átt að leysa þessa stöðu mun betur. Staðan því 13-8 í hálfleik. Seinni hálfleikur byrjaði ágætlega. Í stöðunni 14-10 fyrir HK var einni norðanstúlku vikið af velli og útlitið því dökkt. Útkoman var þó öllu bjartari því að á þessum tveimur mínútum sem stelpurnar voru einum færri jöfnuðu þær leikinn í 14-14.  Leikurinn var nokkuð jafn fram eftir seinni hálfleik en þegar HK missti tvær stelpur út af í sömu vörninni virtist eitthvað klikka all svakalega hjá norðanstelpum því þær töpuðu þeim kafla þrjú núll. Þar með var HK komið í nokkuð góða stöðu. Lokatölur 24-19 HK í vil.

Þrátt fyrir óhagstæð úrslit sást að mikið býr í þessu liði en mikil vinna er framundan.

Stelpurnar fá mikið hrós fyrir baráttugleðina og þann karakter sem þær sýndu. Ef frá er talið seinna korterið í fyrri hálfleiknum á móti Gróttu voru þær alltaf á fullu og létu stigatöfluna ekki á sig fá. Þar sem tveir leikmenn voru eftir heima á Akureyri sökum veikinda fengu fjórða flokks stelpurnar sem voru með í för stærra hlutverk en þær í raun hefðu átt að fá og stóðu þær svo sannarlega undir því.

Eins og áður var sagt þá þurfa stelpurnar að leggja á sig mikla vinnu í vetur en það er mikið í þær spunnið og ef þær halda áfram á þessari braut og æfa vel er deginum ljósara að þær eiga eftir að uppskera ríkulega.