KA tók á móti Akureyri í fyrstu umferð Olís deildar karla í KA-Heimilinu í gær. Mikil eftirvænting var fyrir leiknum og seldist gríðarlegt magn af miðum í forsölu og pallarnir þéttsetnir löngu fyrir leik. Á endanum var að sjálfsögðu uppselt og stemningin ævintýraleg.
KA byrjaði leikinn betur og leiddi en gestirnir voru aldrei langt undan. Er 10 mínútur voru liðnar af leiknum leiddi KA 7-6 og allt í járnum. En þá kom frábær kafli hjá okkar liði sem breytti stöðunni í 13-7 og stuðningsmenn KA í miklu stuði. Sóknarleikur KA gekk eins og vel smurð vél og galopnaði hjarta varnar Akureyrar trekk í trekk á sama tíma og varnarleikurinn var til fyrirmyndar.
Sigþór Árni Heimisson varð fyrir fólskulegu broti er hann prjónaði sig í gegn en fyrirliði Akureyrar, Friðrik Svavarsson, hékk aftan í höndinni á honum og sleppti ekki þrátt fyrir að Sigþór væri kominn einn í gegn. Sigþór fór líklegast úr axlarlið við brotið og lék ekki meira í leiknum en Friðrik slapp með tveggja mínútna brottvísun.
Skömmu síðar skellti Leonid Mykhailiutenko leikmaður Akureyrar Heimi Erni Árnasyni í gólfið þegar hann hrinti við honum er Heimir var í uppstökki. Heimir lenti illa á bakinu, vankaðist við höggið og lék ekki meira í leiknum. Leonid lék reyndar ekki heldur meira í leiknum en hann uppskar beint rautt spjald.
Er flautað var til hálfleiks leiddi KA 16-11 og staðan ansi hreint góð. Spilamennska KA var frábær á sama tíma og gestirnir voru í vandræðum með að finna lausnir á sínum vandræðum. Ef ekki hefði verið fyrir stórleik Arnars Fylkissonar í marki gestanna hefði munurinn verið meiri en Arnar varði 11 skot í hálfleiknum.
Munurinn hélst í 3-5 mörkum í upphafi síðari hálfleiks og allt útlit fyrir að leikurinn yrði þrælspennandi allan tímann. Er 20 mínútur lifðu leiks leiddi KA 19-16 og Akureyri var að koma sér betur og betur í takt við leikinn. Þá kom hinsvegar frábær kafli hjá KA sem breytti stöðunni í 23-17 og skoraði Tarik Kasumovic Bosníumaðurinn í KA meðal annars frábært sirkusmark sem kveikti allsvakalega í húsinu.
Kortér eftir og það stefndi allt í nokkuð þægilegan sigur KA. Þá tóku gestirnir leikhlé sem virtist breyta leiknum auk þess sem Marius Aleksejev kom í markið hjá þeim. Í kjölfarið kom ótrúlegt áhlaup og í raun viðsnúningur því Akureyri tók forystuna 25-26 og aðeins rúmar 5 mínútur eftir af leiknum.
Eðlilega var farið um ansi marga KA menn enda virtist alveg hafa slokknað á okkar liði og gestirnir í miklum gír. En það eru töfrar í KA-Heimilinu auk þess sem KA menn eru ekki beint þekktir fyrir að gefast upp. Einar Birgir Stefánsson sótti vítakast og Áki Egilsnes jafnaði metin.
Jovan Kukobat varði svo gott skot en Marius svaraði í markinu hinum megin og Akureyri fékk því aftur tækifæri á að ná forystunni. Friðrik Svavarsson gerði það eftir frákast eftir gegnumbrot hjá Valþóri Guðrúnarssyni. Jón Heiðar Sigurðsson svaraði með geggjuðu skoti í stöngina inn fyrir utan og spennan svakaleg í húsinu.
Brynjar Hólm Grétarsson fékk svo dauðafæri fyrir gestina og smellti boltanum í skeytin inn en steig á línu. KA gat því aftur tekið forystuna er rétt rúm mínúta lifði leiks. Brynjar uppskar brottvísun eftir hrindingu á Sigþór Gunnar Jónsson, Sigþór braut sér svo leið í gegn í kjölfar brotsins og kom KA yfir í 28-27.
Einar Birgir reyndist svo hetja KA er hann varði skot frá Patreki Stefánssyni undir lokin og gríðarlega sætur 28-27 sigur KA staðreynd! Sigurgleðin hjá KA mönnum var ósvikin og þyrptist fólk á gólfið til að fagna hetjunum sínum.
Ótrúlega mikilvæg 2 stig í hús en báðum liðum var spáð falli í vetur og er ljóst að hvert einasta stig mun vega þungt í lok vetrar. Auk þess er montrétturinn hjá KA þar til liðin mætast aftur seinna í vetur.
Stemningin í húsinu var algjörlega stórkostleg og þökkum við kærlega fyrir stuðninginn og minnum á að ársmiðasala er í fullum gangi og er um að gera að vera með okkur í allan vetur. Á laugardaginn er önnur handboltaveisla í KA-Heimilinu en þá tekur kvennalið KA/Þórs á móti stórliði Vals kl. 14:30 og karlalið KA tekur á móti Haukum kl. 17:00. Sjáumst fersk á laugardaginn og áfram KA!