Það er líf og fjör í handboltanum á Akureyri þessa dagana, góður sigur á Selfyssingum í gær og strax á
mánudaginn er heimaleikur í Eimskipsbikarnum gegn liði Aftureldingar úr Mosfellsbænum.
Liðin mættust hér í Höllinni í byrjun október og lyktaði leiknum með fimm marka sigri Akureyrar 28-23. Það er hins vegar á hreinu
að þau úrslit gera ekkert annað en efla Mosfellinga til dáða og þeir hafa svo sannarlega sýnt það í leikum deildarinnar að ekkert
lið getur bókað sigur gegn þeim.
Afturelding vann góðan sigur á Selfyssingum á Selfossi og bæði HK og Haukar máttu þakka fyrir sigur á þeim í
Mosfellsbænum.
Okkar maður, Hafþór Einarsson markvörður hefur leikið af miklu öryggi með Aftureldingu í vetur og reyndist Akureyrarliðinu erfiður í fyrri
leik liðanna.

Hafþór var valinn besti maður Aftureldingar í leiknum gegn Akureyri
Skyttan Bjarni Aron Þórðarson hefur farið á kostum og er einn markahæsti leikmaður N1 deildarinnar með 44 mörk og ljóst að vörn
Akureyrar þarf að hafa góðar gætur á honum svo og leikstjórnandanum Arnari Frey Theódórssyni sem er þeirra næst markhæsti
maður með 22 mörk. En þar fyrir utan þá er liðsheild þeirra mjög öflug og menn eins og Eyþór Hilmarsson, Þorkell Grétar
Guðbrandsson, Jón Andri Helgason hafa tekið af skarið og skorað grimmt.
Þessi leikur er mikil áskorun fyrir leikmenn Akureyrar því liðið á í raun dapra sögu í bikarnum, datt til dæmis út í
sextán liða úrslitunum tvö síðastliðin ár. Það er því kominn tími að brjóta bikarblaðið og með
öflugum stuðningi áhorfenda getum við lofað hörkuskemmtilegum leik á mánudagskvöldið.
Leikdagurinn er vissulega sérstakur og viljum við því biðja stuðningsmenn á að hnippa í kunningjana og ítreka það að í
þetta sinn er það
mánudagurinn í Höllinni. Leiktíminn er hins vegar hefðbundinn, leikurinn hefst klukkan 19:00 eins og vanalega.
Hér er hægt að rifja upp
umfjöllun um leik liðanna frá því
í haust og jafnframt
kynninguna á liði Aftureldingar.