Bikarveislan framundan hjá KA/Þór

Handbolti

Coca-Cola bikarveislan hefst á morgun, fimmtudag þegar KA/Þór mætir FH í undanúrslitum keppninnar. Leikurinn fer fram að Ásvöllum og hefst klukkan 20:30. Miðasalan er hafin í Stubb og okkar hólf í stúkunni eru A-H.

Sigur tryggir stelpunum sæti í sjálfum úrslitaleiknum en hann fer fram á laugardaginn klukkan 13:30 og því eina vitið að taka helgina frá og styðja stelpurnar til sigurs!

Í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast við Fram og Valur en sá leikur hefst klukkan 18:00 á morgun. Ef þið komist ómögulega á leiki helgarinnar verða þeir allir sýndir beint á RÚV2 og RÚV. Hlökkum til að sjá ykkur í stúkunni, áfram KA/Þór!

Þetta er í fjórða skiptið sem lið KA/Þórs kemst í undanúrslit bikarkeppninnar, fyrst gerðist það árið 2009 og þá steinlá liðið 21-36 einmitt gegn FH. Árið 2018 féllu stelpurnar úr leik eftir hörkuleik gegn Haukum en tókst að hefna fyrir tapið gegn Haukum árið 2020 en þurftu að sætta sig við tap gegn Fram í úrslitaleiknum.


Lið KA/Þórs sem komst í undanúrslit bikarsins árið 2009 (mynd: Þórir Tryggva)

Það er komin ansi góð reynsla í hópinn af stóra sviðinu og eru ófáir leikmenn í hópnum sem hafa leikið síðustu tvær undanúrslitaviðureignirnar auk þess sem tvær í hópnum voru í liðinu sem lék í undanúrslitunum árið 2009 en það eru þær Arna Valgerður Erlingsdóttir og Unnur Ómarsdóttir. Þær voru einmitt markahæstar í undanúrslitaleiknum með 6 mörk hvor.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is