Handknattleiksdeild KA gerði upp nýliðinn handboltavetur á dögunum með glæsilegu lokahófi. Kvennalið KA/Þórs átti frábært tímabil þar sem stelpurnar stóðu uppi sem sigurvegarar í Grill66 deildinni og það án þess að tapa leik og leika stelpurnar því í deild þeirra bestu á næstu leiktíð. Karlalið KA átti sveiflukenndan vetur en rétt missti að lokum af sæti í úrslitakeppninni eftir flottan lokasprett.
Eins og venjulega voru nokkrir leikmenn heiðraðir fyrir tímabilið en Matea Lonac var valin besti leikmaður KA/Þórs en Matea átti enn eitt frábæra tímabilið í marki liðsins. Dagur Árni Heimisson var valinn besti leikmaður KA liðsins en hann var einnig valinn sá efnilegasti en Dagur er aðeins 18 ára gamall.
Hjá stelpunum var Bergrós Ásta Guðmundsdóttir valin efnilegust en hún var í lykilhlutverki í liðinu þrátt fyrir að vera aðeins 17 ára gömul.
Daði Jónsson og Anna Þyrí Halldórsdóttir voru valin bestu liðsfélagarnir og eru þau bæði heldur betur vel að þeim heiðri komin enda miklir leiðtogar og liðsmenn sem drífa liðsfélaga sína áfram.
Að lokum voru þeir Bruno Bernat og Jóhann Geir Sævarsson verðlaunaðir fyrir að hafa leikið sinn 100. leik fyrir KA í vetur.