Handknattleiksdeild KA barst í dag gríðarlegur liðsstyrkur þegar Dagur Gautason skrifaði undir eins og hálfs árs samning við félagið. Dagur snýr því aftur heim en eins og flestir ættu að vita er hann uppalinn hjá KA og lifir svo sannarlega fyrir félagið.
Dagur sem er 25 ára gamall er einn besti vinstri hornamaður landsins og er í 35 manna EM hópi íslenska landsliðsins, þá var hann kallaður til í leikmannahóp landsliðsins á EM 2022. Dagur steig sín fyrstu skref í meistaraflokki KA tímabilið 2017-2018 er KA hóf aftur að leika undir eigin merki. Hann var strax í lykilhlutverki í liðinu sem tryggði sér sæti í deild þeirra bestu og gerði Dagur meðal annars ógleymanlegt sigurmark í fyrsta leik tímabilsins fyrir troðfullu KA-Heimili á lokasekúndu leiksins.
Í kjölfarið hefur hann átt ófá eftirminnileg atvik í gulu treyjunni en hann á alls 89 leiki í deild og bikar fyrir KA. Hann gengur í raðir KA frá norska liðinu ØIF Arendal en þar hefur hann leikið frá haustinu 2023. Með Arendal fór Dagur heldur betur á kostum og var hann valinn í úrvalslið norsku úrvalsdeildarinnar tímabilið 2023-2024 auk þess að vera margoft valinn leikmaður mánaðarins. Dagur lék einnig með franska stórliðinu Montpellier fyrri part 2025 en þar sýndi hann enn og aftur snilli sína og varð Bikarmeistari með liðinu auk þess að leika til úrslita með liðinu í Evrópudeildinni.
Það er gríðarlega sterkt að fá Dag aftur heim enda virkilega spennandi staða uppi hjá KA liðinu en strákarnir eru komnir í bikarúrslitahelgina auk þess að vera í toppbaráttu í Olísdeildinni. Ekki nóg með að fá einn besta vinstri hornamann landsins aftur heim að þá er Dagur grjótharður KA-maður sem gefur sig allan fyrir félagið rétt eins og öll hans fjölskylda. Bræður Dags eru báðir í eldlínunni með KA en Logi leikur einnig í vinstra horni í handboltanum á meðan Kári er öflugur bakvörður í fótboltanum. Þá er systirin hún Ásdís efnileg í fótboltanum hjá Þór/KA auk þess sem foreldrarnir þau Gauti og Hafdís eru ómissandi í starfinu í kringum KA.
Við bjóðum Dag hjartanlega velkominn aftur heim og hlökkum svo sannarlega til að sjá hann aftur í gula og bláa búningnum þegar boltinn fer aftur að rúlla í febrúar.