Eldra ár 4. flokks KA/Þórs áfram í bikarnum og KA/Þór1 en taplaust í deildinni

4. flokkur kvenna hjá KA/Þór fór í sína síðustu Reykjavíkurferð á þessu ári um helgina. Öll liðin þrjú áttu leiki fyrir höndum. Yngra árs liðin tvo leiki hvort en eldra árs liðið einn leik í 16 liða úrslitum í bikar.

Bikarleikurinn
Á fallegum sunnudagsmorgni mættu hressar stúlkur úr eldra árs liði KA/Þórs í Austurberg til að spila við ÍR í 16 liða úrslitum bikars. Þórunn og Sunna höfðu eytt lunga helgarinnar í menningarferð í Vestmannaeyjum með meistaraflokki KA/Þórs á meðan restin af liðinu eyddi laugardeginum í rútu. ÍR liðið er ógnarsterkt og í leik liðanna fyrr í vetur náði KA/Þór sigri með frábærum lokakafla. Því var ljóst að ekkert minna dugði til en virkilega góð frammistaða.
Leikurinn byrjaði rólega, jafnt framan af en þegar KA/Þór náði að stilla saman strengi í vörninni náðu þær þægilegum tökum á leiknum og leiddu í hálfleik með fimm mörkum 8-13. Í síðari hálfleik slökuðu þær ekkert á klónni og enduðu leikinn með stórglæsilegum sjö marka sigri, 18-25. Varnarlega voru þær frábærar, baráttan og stemmingin í vörninni slík að hrein unun var að fylgjast með þeim. Sóknarlega voru þær ekki síðri og hver einasti leikmaður virkur og átti sterk ÍR vörnin fá svör þegar leið á leikinn.
Stelpurnar eru því komnar áfram í 8 liða úrslit. Um næstu helgi spila þær svo tvo leiki við erkifjendurna í HK hér heima áður en þær fara í sex vikna frí frá Íslandsmótinu.

KA/Þór1 spilaði við HK á laugardeginum. HK og KA/Þór hafa spilað gegn hvort öðru á öllum mótum síðustu tvö ár og leikmenn því farnir að þekkja hvor aðra nokkuð vel. Það var stál í stál frá fyrstu mínútu leiksins og skiptust liðin á að hafa forystu.
Vörn HK olli KA/Þórs stelpum talsverðum vandræðum til að byrja með en þegar leið á leikinn náðu norðanstúlkur tökum á leiknum og sigu fram úr. Lokatölur 14-17 fyrir KA/Þór og virkilega góð tvö stig á erfiðum útivelli raunin. Leikgleðin skein úr andlitunum og ef fyrsta klikkaði í vörninni voru alltaf tvær tilbúnar að bakka hana upp. Þar fyrir utan er ekki leiðinlegt að hafa Arnrúnu fyrir aftan í markinu sem tekur þau skot sem þó sleppa í gegn. Með slíka baráttu eru þær ill viðráðanlegar og sést það ágætlega á því ef markatalan er skoðuð, þar sem KA/Þór1 hefur fengið hvað fæst mörk á sig í deildinni að meðaltali.
Á sunnudeginum spiluðu þær svo við lið Stjörnunnar. KA/Þór spilaði sinn venjulega leik. Góð vörn, markvarsla, hraðaupphlaup, skynsamur og agaður sóknarleikur skilaði þeim sex marka forystu í hálfleik, 7-13 og endaði leikurinn 16-28 fyrir KA/Þór.
Niðurstaða helgarinnar því fjögur stig sem ekki er hægt að kvarta yfir. Um næstu helgi eiga þær heimaleik gegn Haukum á föstudagskvöldið. Eftir það kemur sex vikna hlé þannig að nú er bara að gefa allt í þennan leik og tryggja tvö stig í viðbót fyrir jólafríið.

KA/Þór2
Á laugardeginum spilaði lið KA/Þórs2 við HK2. Leikurinn byrjaði ágætlega og jafnt var framan af, þegar fyrstu skotin fóru að klikka misstu stelpurnar hausinn og duttu í ruglgír sóknarlega. HK2 er með virkilega sterkt lið og í raun með eitt af bestu liðum 2. deildarinnar. Það sem hefur sárlega vantað í vetur hjá stelpunum er að berja frá sér ef þannig má að orði komast en í þessum leik fór að bera á baráttu hjá þeim varnarlega. Hins vegar gerðu þær full mikið af mistökum sóknarlega. Heilt yfir ágætis frammistaða varnarlega en sóknin leið fyrir of mikið af sendingamistökum.

Sunnudagurinn var þó allt annar hjá stelpunum. Þar áttu þær leik við lið 2 hjá Stjörnunni. Liðið var heldur fámennt og því var brugðið á það ráð að semja um leyfi fyrir Arnrúnu markmann í liði KA/Þór1 að hún fengi að spreyta sig sem útileikmaður. Átti hún eftir að koma mörgum á óvart, þá sér í lagi þjálfurum sínum. Sérstaklega í ljósi þess að hún hafði legið veik í bæli fyrir ferðina og skilað góðri frammistöðu í markinu í leikjunum tveimur með KA/Þór1.
Stelpurnar spiluðu af krafti allan leikinn og börðust, það verður ekki af þeim tekið. Fyrri hálfleikurinn var þó ákaflega sérstakur þar sem fjöldinn allur af skotum lentu í greipum markmanns Stjörnunnar. Staðan í hálfleik var því 10-1 fyrir Stjörnunni en það gefur þó ekki alveg rétta mynd af spilamennsku liðsins. Í seinni hálfleik var þó annað upp á teningnum og KA/Þór fór að raða inn mörkum. Á fyrstu 15 mínútum hálfleiksins skoruðu norðanstúlkur sjö mörk og breyttu stöðunni í 13-8. Þá hins vegar hrökk markmaður Stjörnunnar aftur í gang og lokaði hreinlega markinu síðustu tíu mínúturnar. 19-8 tap staðreynd en það breytir því þó ekki að þessi síðari hálfleikur var virkilega vel spilaður hjá þeim. Baráttan í vörn og sókn var til fyrirmyndar og stemming í liðinu sem hefur sárlega vantað framan af vetri gerði vart við sig.

Það er sjaldan of oft sagt að lið 2 er hugsað fyrir þær stelpur sem þurfa á því að halda að fá að spila til að bæta sinn leik. Það er engum greiði gerður með því að sleppa þessu liði og skerða spiltímann þeirra. Þær eiga að nota þennan vetur til að bæta sig og læra. Lokatölur og stigasöfnun skiptir ekki máli, heldur frammistaða þeirra inn á vellinum og bæting á þáttum sem þarf að bæta.
Það má nefnilega ekki gleyma því að enginn veit hversu langt hann nær þegar hann er 14 ára. Alfreð Gíslason einn af okkar fremstu handboltamönnum var orðinn 19 ára þegar hann fór að vekja athygli á sér. Fram að því höfðu margir víst afskrifað hann. Stelpurnar í liði 2 æfa flestar vel og þær eiga eftir að uppskera síðar meir ef þær halda áfram á þessari braut, það er ekki spurning. Þær sýndu það í Stjörnuleiknum að þær geta lamið frá sér, nú þurfa þær að einbeita sér að því að ná upp þessari baráttu í öllum leikjum.