Endurkoman dugði ekki gegn Selfyssingum

Handbolti
Endurkoman dugði ekki gegn Selfyssingum
Hart barist í kvöld (mynd: Þórir Tryggva)

KA tók á móti Selfossi í hörkuleik í Olís deild karla í handboltanum í KA-Heimilinu í kvöld. Liðin höfðu gert jafntefli í fyrri viðureign sinni í vetur og voru mikilvæg stig í húfi fyrir bæði lið. Það var greinilegt að stuðningsmenn beggja liða vissu vel af mikilvægi leiksins og var mjög flott mæting í stúkuna og gaman að sjá nokkra vínrauða Selfyssinga á svæðinu.

Gestirnir leiddu leikinn frá upphafi ef frá er talið er staðan var jöfn 1-1. Öflugur varnarleikur og góð markvarsla var helsti munurinn á liðunum á upphafsmínútunum en er leið á fyrri hálfleikinn komst okkar lið betur í takt en KA lék með aukamann í sókninni til að reyna að opna betur vörn Selfyssinga.

Staðan var 7-9 eftir um kortérs leik og mikil spenna í loftinu. Þá kom slæmur kafli hjá okkar liði og gestirnir gengu á lagið. Staðan var skyndilega orðin 7-14 og ljóst að erfitt verkefni var orðið nær ómögulegt enda Selfoss gríðarlega sterkt lið sem er ekki líklegt til að missa niður jafn stórt forskot.

Strákarnir náðu að minnka muninn í 10-15 skömmu fyrir hlé en Selfyssingar náðu síðasta markinu og staðan því 10-16 er liðin gengu til búningsherbergja sinna í hálfleik. Klárt að okkar lið átti þó nokkuð inni en spurning hvort að strákarnir næðu að gera leik úr þessu í þeim síðari.

Tímalína fyrri hálfleiks

Ekki var byrjunin á þeim síðari til að auka á jákvæðni og var staðan skyndilega orðin 13-20. Þá kom hinsvegar frábær kafli hjá okkar liði sem gerði fjögur mörk í röð og kveikti allsvakalega í KA-Heimilinu og ekki hafði stemningin verið slæm fyrir.

Gestirnir náðu hinsvegar aftur áttum og komu forystu sinni aftur í fimm mörk skömmu síðar en þessi kafli sýndi að enn var von og KA liðið barðist áfram fyrir því að koma sér betur inn í leikinn. Er rétt rúmar 10 mínútur lifðu leiks náðu strákarnir að minnka muninn í tvö mörk í 24-26 og spennan í algleymingi.

Er tæpar fjórar mínútur voru eftir var staðan orðin 27-29 og fékk KA nokkur tækifæri á að minnka muninn í eitt mark en það gekk ekki en hvorugt liðið skoraði á lokamínútunum og Selfyssingar fóru því með 27-29 sigur af hólmi.

Tímalína seinni hálfleiks

Frábær barátta hjá okkar liði að koma sér aftur í leikinn og klárt að það eru ekki mörg lið sem hefðu gert jafn mikinn leik úr þessu eftir að hafa verið 7 mörkum undir í síðari hálfleik. Því miður var munurinn bara aðeins of mikill og því fór sem fór.

Selfoss sótti því tvö gríðarlega mikilvæg stig í sinni toppbaráttu á meðan KA liðið er enn með 13 stig í 9. sætinu þegar fjórar umferðir eru eftir og gríðarleg barátta framundan fyrir áframhaldandi veru í deild þeirra bestu og jafnvel sæti í úrslitakeppninni.

Næsti leikur er útileikur gegn Aftureldingu á sunnudaginn og verður spennandi að sjá hvernig strákarnir koma stemmdir í þann leik. Við viljum hinsvegar þakka kærlega fyrir stuðninginn í dag, þrátt fyrir að KA hafi verið undir allan leikinn var stemningin frábær í KA-Heimilinu og klárt að við munum sækja fleiri stig í næstu heimaleikjum ef við höldum þessu áfram!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is