Tvö gull hjá eldra ári 5. flokks kvenna

KA/Þór1 hóf leikinn gegn gestgjöfunum í Haukum. KA/Þór1 sýndi strax í þeim leik að þær voru mættar til að selja sig dýrt á þessu móti og unnu góðan sigur, 14-4 þar sem vörn, markvarsla og hraðaupphlaup voru til fyrirmyndar. 

Næsti leikur var gegn ÍBV sem hingað til í vetur hafa reynst stelpunum erfiðar og unnið allar viðureignirnar í vetur með einu til tveimur mörkum. Norðanstúlkur voru greinilega búnar að fá nóg af þessum yfirburðum ÍBV og spiluðu sinn allra besta hálfleik í vetur og staðan 8-2 í hálfleik fyrir KA/Þór. Stelpurnar féllu þó í þá gryfju að ætla að fara að verja forskotið í seinni hálfleik og datt allur taktur úr þeim sóknarlega. Urðu ragar og gerðu mörg slæm mistök. ÍBV gekk á lagið og náði að minnka í tvö mörk en lengra komust þær ekki og sigur KA/Þórs staðreynd, 12-10. Þar sem virkilega grimm vörn síðustu fimm mínúturnar bjargaði leiknum. Síðasti leikur föstudagsins var gegn HK og unnu KA/Þór stelpur hann nokkuð þægilega 18-7.

Sunnudagurinn byrjaði á leik gegn Fram, sigur í þeim leik hefði tryggt stelpunum 1. sætið og var ljóst frá byrjun að þetta yrði þeim erfiður leikur. Hingað til hafa stelpurnar átt góðu gengi að fagna gegn Fram en nokkuð ljóst að taugatitringurinn var mikill. Sóknarlega spiluðu þær frekar illa en varnarlega voru þær frábærar með Arnrúnu í markinu fyrir aftan var ekki að spurja að árangrinum. Stelpurnar fengu aðeins 6 mörk á sig gegn stóru og sterku liði Fram. Hins vegar gekk ekkert sóknarlega og skoruðu stelpurnar einungis 6 mörk í leiknum. Jafntefli staðreynd. Síðasti leikurinn var gegn Fylki og þar unnu stelpurnar þægilegan sigur, 9-3.

Stelpurnar fylgdust spenntar með leik ÍBV og Fram en þurftu að fara í hálfleik. Fréttirnar komu síðan í gegnum síma að Fram og ÍBV leiknum hafði endað með jafntefli og KA/Þór1 því endað í 1. sæti á mótinu.
Stelpurnar eru vel að þessum sigri komnar, þær hafa daðrað við fyrsta sætið marg oft á síðasta ári eftir að hafa byrjað í 2. deild í fyrra og hafa nú fest sig í sessi sem eitt af sterkustu liðunum í 1. deildinni.
Nú er aðeins eitt mót eftir og ljóst að þær verða liðið til að vinna á næsta móti. Þannig að nú þýðir ekkert annað en að halda vel á spöðunum og æfa eins og skeppnur fram að næsta móti og sleppa ekki takinu af 1. sætinu.

Stelpurnar í KA/Þór 2 stóðu sig einnig mjög vel, en þær unnu alla sína leiki og stóðu uppi sem sigurvegar í 4. deildinni. Fyrsta leikinn unnu þær sterkt lið Hauka 14-10 þar sem stelpurnar spiluðu allar mjög vel. Á laugardaginn unnu þær svo Selfoss, Aftureldingu, Fjölni og Stjörnuna, alla leikina frekar þægilega. Á laugardagsmorguninn vöknuðum við fyrir allar aldir og áttum fyrsta leik við Selfoss klukkan 8:00. Stelpurnar eru greinilega mjög morgunhressar því að þetta var þeirra besti leikur og þær unnu mjög sannfærandi sigur, 19-3. Næstu þrjá leiki reyndi mikið á vörn og markvörslu. Þær náðu upp virkilega góðri vörn og þá kom markvarslan með. Við þetta bættust síðan hraðaupphlaup og seinni bylgjur og það er ljóst að þegar þetta lið nær upp þessari spilamennsku eru þær illviðráðanlegar. Þetta var langbesta mótið hjá þessu liði hingað til og frábært að sjá hversu miklar framfarir hafa verið hjá stelpunum í vetur. Það hefur heldur betur skilað sér að mæta á æfingar og leggja sig allar fram. Liðið var skipað fjórum stelpum af eldra árinu og þrem lánsstelpum af yngra árinu og það var frábært að sjá hvað þær spiluðu vel saman. Nú er bara eitt mót eftir hjá þessum stelpum og það verður virkilega spennandi að sjá þær æfa vel fram að því og spila svo í næstu deild fyrir ofan.