4. flokkur karla: 5 sigrar í 7 leikjum.

Öll þrjú lið 4. flokks fóru suður um helgina og léku allt í allt sjö leiki. Liðunum gekk misjafnlega en það voru bæði B-liðin sem báru af um helgina en leikmenn þeirra liða mættu virkilega klárir í þessa helgi, lögðu sig alla fram og höfðu gaman af því að spila. 5 leikir unnust af 7 að þessu sinni.

A-lið


A-liðið lék á föstudagskvöldinu í bikar og mætti þar Víkingi B. Þar var um að ræða mjög ójafnan leik og vann KA að lokum 32-8 eftir að hafa verið 15-3 yfir í hálfleik. Strákarnir eru því komnir í 16-liða úrslit í bikarnum.

Þá var komið að deildinni og leikir bæði á laugardag og sunnudag (gegn FH og Stjörnunni). Ljóst var fyrir að um hörkuleiki yrði að ræða og til að ná sigrum þyrftu KA menn að mæta klárir í helgina og ná góðum leik. Því miður var alls ekki svo um helgina og mættu leikmenn mjög illa undirbúnir til leiks.

Þeir voru illa einbeittir og gerðu fjölmörg mistök í seinni leikjunum tveimur. Allt í allt glataði liðið samtals heilum 41 bolta gegn FH og Stjörnunni. Hreint lýgilegar tölur en ljóst er að þegar svo er getur ekki verið von á góðu.

Gegn FH var leikurinn jafn lengst af þrátt fyrir að KA hafi glatað 24 boltum í þeim leik. FH leiddi með þremur mörkum í hálfleik en KA náði svo að jafna í síðari hálfleik. En alltaf þegar KA komst nálægt þeim þá réttu þeir heimamönnum forystuna aftur og vann FH að lokum 28-27. Í síðari leiknum var svipað uppi á teningunum. KA-menn voru að glata mikið af boltum og Stjarnan fékk fjölmörg hraðaupphlaup og vann 32-24 en mikið vantaði þar uppá hjá KA mönnum.

Niðurstaðan 0 stig í deildinni um helgina og gríðarlegur fjöldi mistaka. Algjört einbeitingarleysi einkenndi leikmenn lengi vel og skortur á vilja hreinlega. Menn virtust vera komnir til Reykjavíkur til að gera aðra hluti en að spila handbolta og einkenndist helgin að því að hugurinn kom lítið sem ekkert inn í handboltasalinn. Strákarnir verða að fara vandlega yfir þessa helgi og þurfa nú að gera upp við sig hvað þeir eiginlega vilja gera á handboltavellinum í framtíðinni.

B-1

B-1 mættu gríðarlega vel undirbúið í þessa helgi og sást strax að þeir ætluðu sér stóra hluti um helgina. Þeir mættu FH í fyrri leiknum sínum og komust strax í góða forystu með góðri liðsheild og stemmningu. Færslan í vörninni var mjög góð framan af og kom liðinu í þá góðu stöðu sem það náði. KA var 13-10 yfir í hálfleik og vann að lokum 29-24.

Frábær sóknarleikur KA í leiknum var það sem stóð upp úr og það jákvæðasta þar var hve margir leikmenn voru að skila. Hvort sem menn byrjuðu inná vellinum eða útaf voru þeir klárir að fyrir liðið og skóp það góðan sigur í dag. Þetta er vonandi eitthvað sem heldur áfram. Varnarleikurinn datt inn og út en er allur að koma til hjá liðinu.

Í seinni leiknhum hélt leikgleðin áfram þegar liðið mætti Þrótti. Með öflugri vörn náði KA aftur undirtökunum og leiddi allan fyrri hálfleikinn. Nokkuð vantaði þó upp á sóknina í hálfleiknum og KA 10-9 yfir þegar gengið var til búningsherbergja. Í seinni hálfleik hélt KA svo áfram öflugri vörn en styrkti sóknarleikinn og vann að lokum sannfærandi sigur 25-19.

Liðið var til fyrirmyndar um helgina og allir að vinna saman og umfram allt að njóta þess að spila. Flottur andi er í liðinu og þarf að byggja á því áfram.

B-2

B-2 léku við Aftureldingu í fyrsta leik. Þar voru strákarnir eitthvað eftir sig framan af leik eftir rútuferðina því það vantaði mikið upp á í fyrri hálfleik. Þeir voru nokkuð frá sínu besta og leiddu heimamenn með fjórum mörkum í hálfleik. Í seinni hálfleik kom hins vegar allt annað KA lið inn á völlinn og bættu strákarnir leik sinn mikið. Að lokum náði KA að vinna eins marks sigur eftir að leikmenn höfðu skipt um ham og lagt sig alla í seinustu 25 mínútnar.

Í seinni hálfleiknum fóru þeir að sækja á markið af meiri krafti og létu ekki stoppa sig. Þá var mikil stemmning og barátta í vörninni sem skilaði hraðaupphlaupum og sigri að lokum.

Á sunnudeginum lék liðið gegn Stjörnunni. Jafnræði var framan af leik og hart barist en staðan var 13-12 fyrir Stjörnuna í hálfleik. Í seinni hálfleik eignaði KA sér leikinn hins vegar með mjög þéttri vörn og beittri sókn. KA vann leikinn að lokum 21-26 og glæsilegur sigur staðreynd.

Glæsilegt var að sjá leikmenn í sókninni löngum stundum um helgina en þegar boltinn fékk að ganga vel þá uppskar liðið alltaf góð færi. Liðið hefur leikmenn sem eru mjög góðir fintarar og skapaðist oft á tíðum mikil hætta útaf því um helgina en KA menn hreinlega göbbuðu andstæðinga upp úr skónum trekk í trekk. Frábær liðsheild er hjá liðinu og menn vinna vel saman sem er að skila liðinu mjög vel.