Haukar fóru heim með bæði stigin í dag

Martha skoraði 5 mörk gegn Haukum
Martha skoraði 5 mörk gegn Haukum

Haukarnir reyndust of stór biti fyrir KA/Þór í dag þegar liðin mættust í N1 deild kvenna. Leiknum lauk með tíu marka sigri Hauka 24-34 eftir að hafa leitt 11-17 eftir fyrri hálfleik. Hér á eftir fer umfjöllun Þrastar Ernis Viðarssonar úr Vikudegi.is

KA/Þór tapaði sínum fjórða leik í röð í N1- deild kvenna í handbolta þegar liðið tapaði fyrir Haukum með tíu marka mun, 24:34, er liðin áttust við í KA- heimilinu í dag. Það var einna helst markvarslan sem skyldi liðin að í dag en Heiða Ingólfsdóttir átti afbragðsleik í marki Hauka og varði 18 skot í leiknum, þar af 15 í fyrri hálfleik, á meðan markverðir KA/Þórs, þær Selma Sigurðadóttir og Lovísa Eyvindsdóttir, vörðu 5 skot samanlagt.

Leikurinn var þó jafn í byrjun. Heimastúlkur komust í 4:2 og héldu í við Hauka framan af fyrri hálfleik. Þegar líða fór á leikinn fóru gestirnir hægt og bítandi að síga framúr og höfðu sex marka forystu þegar flautað var til leikhlés, 17:11.

Gestirnir héldu áfram þar sem frá var horfið í fyrri hálfeik í þeim seinni og náðu mest 11 marka forystu í leiknum í stöðunni 31:20. Það fór svo að lokum að Haukar tryggðu sér tíu marka sigur, 34:24.

Arna Valgerður Erlingsdóttir og Martha Hermannsdóttir voru markahæstar í liði KA/Þórs í dag með 5 mörk hvor, Katrín Vilhjálmsdóttir skoraði 4, Kolbrún G. Einarsdóttir 3, Ásdís Sigurðardóttir 2, Guðrún Tryggvadóttir 2, Inga Dís Sigurðsdóttir 2 og Emma Havin Sardardóttir 1 mark. Þá varði Selma Sigurðardóttir 3 skot í leiknum og Lovísa Eyvindsdóttir 2 skot, en markverðirnir náðu sér engan veginn á strik í dag hjá KA/Þór og munar um minna.

Í liði Hauka fór Hanna G. Stefánsdóttir á kostum og skoraði 11 mörk. Ester Óskarsdóttir kom næst með 6 mörk, Erna Þráinsdóttir 3, Nina B. Arnfinnsdóttir 3, Ramune Pekarskyte 3, Tatjana Zukovska 3, Nina K.Björnsdóttir 2, Ásthildur Friðgeirsdóttir 1, Þórdís Helgadóttir 1 og Þórunn Friðriksdóttir 1 mark.

Þá varði Heiða Ingólfsdóttir 18 skot í leiknum fyrir gestina.

Staða KA/Þórs eftir fyrstu fjórar umferðirnar er ekki vænleg en liðið hefur enn ekki innbyrt stig í deildinni. Framundan er erfiður heimaleikur hjá norðanstúlkum þegar Stjarnan kemur heimsókn nk. laugardag, þann 7. nóvember.

Sjá fréttina á vikudegi.is