Síðastliðinn laugardag lék meistaraflokkur KA/Þórs sinn stærsta leik á tímabilinu en þá spiluðu þær við lið FH í undanúrslitum Eimskipsbikars kvenna.
FH stúlkur mættu ákveðnar til leiks og tóku strax öll völd á vellinum. Mikil taugaspenna var í okkar stúlkum og reynslumikið lið FH nýtti sér aðstæður til hins ítrasta. FH leiddi með 12 mörkum í hálfleik og nokkuð ljóst að draumurinn um að komast í höllina var orðinn ansi fjarlægur.
Í leikhlé var ákveðið að hugsa ekki um stöðuna heldur frekar að njóta leiksins. Njóta þess að upplifa stemminguna á vellinum og spila ánægjunnar vegna.
Seinni hálfleikurinn var mun betri heldur en sá fyrri og léku stelpurnar FH vörnina oft grátt.
Sóknarlega voru stelpurnar að gera ágætis hluti á köflum jafnvel þó Arna Valgerður hafi verið tekin úr umferð nánast allan leikinn. Unnur Ómarsdóttir sýndi nokkur hress dansspor framhjá vörn FH og Emma Sardardóttir setti nokkrar slummur. Þó voru ýmsar sóknarákvarðanir teknar í taugaveiklun sem iðulega varð til þess að stelpurnar fengu mark í bakið eftir hraðaupphlaup.
Varnarlega áttu stelpurnar ekki sinn besta leik en bitu þó aðeins frá sér á tímabili.
Burtséð frá lokatölum og gangi leiksins er árangurinn frábær hjá stelpunum. Það verður að athuga það að þetta er í fyrsta sinn sem þær spila fyrir framan þetta mikið magn af áhorfendum og eðlilega voru taugarnar nokkuð trekktar fyrir vikið. Þessi leikur fer í reynslubankann og á bara eftir að efla þær upp á framhaldið að gera.
Með þessum áfanga fá stelpurnar vonandi trú á sína eigin getu og finna það að allt er hægt í þessari
íþrótt. Engin þraut er óyfirstíganleg ef maður trúir sjálfur á jákvæða útkomu.
Mörk KA/Þórs: Arna Valgerður Erlingsdóttir 6, Unnur Ómarsdóttir 6, Emma 5, Lilja Sif Þórisdóttir 2, Arndís
Heimisdóttir 1, Þórdís Sigurbergsdóttir 1.