Fimm marka sigur KA gegn Þrótti

Jovan Kukobat átti stórleik í markinu
Jovan Kukobat átti stórleik í markinu

Meistaraflokkur KA mætti í Laugardalshöllina á föstudagskvöldið þar sem þeir sóttu heim lið Þróttar í Grill 66 deild karla. Ein breyting var á KA liðinu frá síðasta leik þar sem Áki Egilsnes kom inn í hópinn eftir að hafa misst af þrem leikjum vegna meiðsla.

Þróttarar höfðu unnið síðustu þrjá leiki sína í deildinni og því ljóst að búast mætti við hörkuleik. Það kom líka á daginn. Jafnt var á öllum tölum þar sem Þróttur var með frumkvæðið upp í stöðuna 5-4 en þá komu tvö KA mörk í röð og þar með var frumkvæðið orðið norðanmanna.

Áfram var þó allt í járnum, Þróttarar náðu ávallt að jafna leikinn en KA með eins marks forystu í hálfleik 11-12. Áki og Daði Jónsson með þrjú mörk hvor og Jovan kominn með 10 varin skot í markinu.

Strax í upphafi seinni hálfleiks náðu KA menn þriggja marka forystu 11-14 og býsna öruggum tökum á leiknum. Þessi tveggja til þriggja marka munur hélst þar til rúmar tíu mínútur voru til leiksloka en þá náðu Þróttarar að minnka muninn í eitt mark 18-19.

Stefán Árnason tók leikhlé og sem skilaði þrem KA mörkum í röð og forystan orðin fjögur mörk 18-22. Þróttur minnkaði muninn í 20-22 og fjórar mínútur eftir af leiknum. Þær voru hinsvegar algjörlega eign KA manna svo og síðustu þrjú mörk leiksins sem skiluðu góðum fimm marka sigri KA, 20-25.

Jovan Kukobat átti stórleik í markinu með 18 vörslur, margar þeirra úr opnum færum. Sömuleiðis var Áki drjúgur í sókninni með átta mörk og Dagur Gautason magnaður á lokamínútunum.

Mörk KA: Áki Egilsnes 8, Andri Snær Stefánsson 5 (3 úr vítum), Dagur Gautason 4, Daði Jónsson 3, Sigþór Árni Heimisson 2, Elfar Halldórsson, Jóhann Einarsson og Kristján Garðarsson 1 mark hver.
Jovan Kukobat stóð vaktina í markinu og var frábær eins og áður segir, 18 varin skot, þar af 1 vítakast.

Mörk Þróttar: Þröstur Bjarkason 6, Axel Sveinsson 3, Óttar Filipp Pétursson 3, Sigurbjörn Bernharð Edvardsson 3, Viktor Jóhannsson 2, Magnús Öder Einarsson, Ólafur Guðni Eiríksson og Sævar Ingi Eiðsson með 1 mark hver.

Besti maður Þróttar var þó tvímælalaust markvörðurinn Halldór Rúnarsson sem átti algjörlega frábæran leik.

Hér er yfirlit yfir gang leiksins:

Tímalína fyrri hálfleiks
Tímalína seinni hálfleiks

Leikurinn var í beinni útsendingu á KA-TV og hægt að horfa á leikinn í spilaranum hér að neðan.