Fjögur lið frá KA og KA/Þór komin í bikarúrslit

Mikil gróska er í handboltastarfi KA og KA/Þórs og nýverið tryggðu hvorki fleiri né færri en fjögur lið á okkar vegum sér sæti í bikarúrslitum.

Hinn ógnarsterki 2012 árgangur KA og KA/Þórs sem skipar eldra ár 5. flokks er í bikarúrslitum annað árið í röð en bæði strákarnir og stelpurnar eru ríkjandi meistarar frá því í fyrra. Mikill metnaður einkennir hópana en krakkarnir munu til að mynda keppa á Norden Cup milli jóla og nýárs þar sem bestu lið Norðurlandanna keppa sín á milli. Þjálfari strákanna er Andri Snær Stefánsson og Heimir Örn Árnason stýrir stelpunum.

Stelpurnar á yngra ári 5. flokks, fæddar 2013, eru rétt eins og stelpurnar á eldra árinu í bikarúrslitum eftir frábæra frammistöðu á heimavelli um síðustu helgi.

Þá eru strákarnir á yngra ári 6. flokks, fæddir 2015, einnig í bikarúrslitum en þetta er yngsti aldursflokkurinn þar sem keppt er í bikarnum. Þjálfari strákanna er Jón Heiðar Sigurðsson.

Það verður virkilega gaman að fylgjast með okkar flottu liðum þegar kemur að bikarúrslitunum en allir úrslitaleikir fara fram í glæsilegri umgjörð á úrslitahelgi Poweradebikarsins um mánaðarmótin febrúar/mars.

Meistaraflokkur karla freistar þess að tryggja sér sæti í bikarúrslitahelginni eftir viku þann 19. desember þegar strákarnir taka á móti Fram í 8-liða úrslitum keppninnar og þá eru stelpurnar í 4. flokki KA/Þórs enn í baráttunni eftir góðan 15-21 sigur á Aftureldingu fyrr í vetur.