Fjör á æfingum í kvennahandboltanum

Stelpurnar í unglinga- og meistaraflokki hafa verið að æfa á fullu núna síðustu fjórar vikurnar.

Þetta árið var ákveðið að berjast markvisst gegn brottfalli stúlkna sem ganga upp úr 4. flokknum en það hefur verið ærið vandamál síðustu árin.

Til að sporna gegn þessu vandamáli hefur verið búinn til sérstakur vettvangur fyrir þær sem vilja halda áfram að æfa handknattleik en treysta sér ekki til að æfa á fullu eða eru á eftir þeim sterkustu í getu. Einnig er vonast til þess að þær sem hafa hætt í gegnum árin taki fram skóna að nýju og gefi íþróttinni annan séns.

Stefnt er að því í vetur að unglingaflokkur sendi inn tvö lið, A lið og B lið.

A liðið vann sér inn keppnisrétt í efstu deild núna á dögunum og er stefnt að því að láta B liðið spila í 2. deild í vetur. Þannig fá þær sem mynda B hópinn verkefni yfir veturinn og geta þar af leiðandi æft handbolta á því tempói sem þær treysta sér til.

Meistaraflokkurinn er skráður í 2. deild þennan veturinn ásamt því að vera skráður í bikarkeppni HSI. Í meistaraflokknum er það sama upp á teningnum og í unglingaflokki. Unnið er að því að fá þær sem hafa hætt í gegnum árin til að taka fram skóna að nýju og með þessum aðgerðum á að mynda stóran og góðan hóp. Það er nægur efniviður hér í bæ til að halda úti öllum þessum liðum en það er undir þeim sjálfum komið sem hætt hafa að sjá hvort að þetta geti ekki verið skemmtilegt aftur.

Æfingarnar hingað til hafa gengið ágætlega. Þetta gekk brösuglega í byrjun en er þó að komast í réttan farveg. Ýmis andlit hafa litið á æfingu og er vonast til þess að sem flestar af þeim haldi áfram ásamt því að fleiri bætist við. Ef einhver þarna úti hefur áhuga á því að byrja að æfa er um að gera að mæta bara á æfingar og sjá hvernig þeim finnst þetta. Það er aldrei of seint að byrja aftur!

Svo skemmir ekki fyrir að ýmis fríðindi fylgja því að taka fram skóna aftur. Má þar helst nefna að frítt er fyrir leikmenn að stunda líkamsrækt í líkamsræktarstöðinni Átaki!

Áhugasamar geta einnig haft samband við Stefán þjálfara í síma 868-2396

Æfingatímar eru svo eins og hér segir:
Meistaraflokks hópurinn samanstendur af þeim sem eru lengra komnar og vilja vera í þessu sporti á fullu og þær mæta á eftirfarandi tímum:

Mánudagar 18:30-20:00
Miðvikudagar: 18:00-19:30
Föstudagar: 16:30-18:00
Sunnudagar: 11:00-12:30 (ákveðið á föstudegi hvort þessi æfing verði notuð)

Hópur tvö samanstendur af þeim sem eru ekki komnar jafn langt í handbolta og/eða hafa ekki tíma til að gera þetta á fullu. Munu þær sem eru á unglingaflokks aldri mynda b lið unglingaflokks í vetur, ef þær hafa áhuga á því þar að segja.

Mánudagar: 17:30-18:30
Miðvikudagar: 17:30-18:30
Föstudagar: 16:30-17:30

Allar æfingar hjá báðum flokkum eru í KA heimilinu.

Kv.
Stefán Guðnason stebbigje@mail.is