Fjórar úr KA/Þór í landsliðsverkefni

Handbolti
Fjórar úr KA/Þór í landsliðsverkefni
Flott viðurkenning hjá okkar stelpum

KA/Þór hefur farið frábærlega af stað í Olís deild kvenna og það hefur eðlilega vakið athygli á leikmönnum liðsins. Á dögunum voru valdir æfingahópar hjá U-17 og U-19 ára landsliðum kvenna auk þess sem valinn var hópur hjá B-landsliði Íslands.

Hulda Bryndís Tryggvadóttir og Sólveig Lára Kristjánsdóttir voru valdar í B-landsliðið sem mun æfa í lok nóvember auk þess að leika tvo leiki við Færeyjar dagana 24. og 25. nóvember. Þetta er flott tækifæri fyrir þær Huldu og Sólveigu en leikmenn úr hópnum geta verið teknar inn í A landsliðshópinn með stuttum fyrirvara.

Anna Þyrí Halldórsdóttir hefur slegið í gegn á línunni að undanförnu og uppskar sæti í æfingahópi U-19 ára landsliðsins. Hópurinn mun æfa helgina 22.-25. nóvember en þjálfarar eru þeir Stefán Arnarson og Sigurgeir Jónsson.

Rakel Sara Elvarsdóttir var svo valin í æfingahóp U-17 ára landsliðsins en hún er einungis 15 ára en hefur þrátt fyrir það leikið þó nokkuð stórt hlutverk í meistaraflokksliði KA/Þórs í vetur. Rétt eins og með U-19 mun hópurinn mun æfa helgina 22.-25. nóvember en þjálfarar liðsins eru þau Rakel Dögg Bragadóttir og Sigurjón F. Björnsson.

Við óskum stelpunum til hamingju með valið sem og góðs gengis á æfingunum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is