07.09.2013
Opna Norðlenska mótið hófst með tveimur leikjum í gær, föstudag. í fyrri leiknum mættust Akureyri og Fram, Akureyri byrjaði betur og
náði þriggja marka forystu, 6-3 en þá svaraði Framliðið með fimm mörkum í röð. Fram hélt frumkvæðinu í
leiknum nema hvað Akureyri skoraði tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks og leiddi 15-14 í hálfleik.
Akureyrarliðið tók síðan öll völd í seinni hálfleik, skoraði fimm fyrstu mörkin og hélst sex marka munur lengst af en Fram
klóraði í bakkann undir lokin með fjórum síðustu mörkum leiksins sem endaði með tveggja marka sigri Akureyrar 24-22.
Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 7 (2 úr vítum), Kristján Orri Jóhannsson 6, Andri Snær Stefánsson 4, Vladimir Zejak 3,
Þrándur Gíslason 2, Sigþór Heimisson og Valþór Guðrúnarson 1 mark hvor.
Í markinu varði Jovan Kukobat 17 skot, þar á meðal 2 vítaköst. Tomas Olafson kom inn á og spreytti sig á tveim vítaköstum og
varði annað þeirra með tilþrifum.
Mörk Fram: Leikmaður nr. 17 með 5 mörk, nr.21 með 4. mörk, Sveinn Þorgeirsson 3, Garðar Benedikt Sigurjónsson 3 (3 úr vítum),
Sigfús Páll Sigfússon 2, leikmaður nr. 10 með 2 mörk, nr. 6 með 2 mörk og nr. 27 með 1 mark.
Markverðir Fram vörðu samtals 12 skot.
Í seinni leiknum mættust Stjarnan og Valur. Mikið jafnræði var með liðunum lengi framan af og jafnt í stöðunni 9-9. Þá tóku
Valsarar mikinn kipp og skoruðu sex mörk í röð og höfðu örugga forystu í hálfleik, 11-17. Munurinn jókst í upphafi seinni
hálfleiks og varð mestur átta mörk, 13-21. Stjörnumenn voru ekki af baki dottnir, Einar Hólmgeirsson tók til sinna ráða og raðaði inn
mörkum og skyndilega var forskot Valsmanna komið niður í þrjú mörk, 24-27. Valsmenn sigldu þó þægilegum fimm marka sigri í
höfn en lokatölur urðu 26-31 fyrir Val.
Mörk Stjörnunnar: Einar Hólmgeirsson 7, Ari M. Þorkelsson 4 (2 úr vítum), Starri Friðriksson 4 (1 víti), Egill Magnússon 3,
Hjálmtýr Alfreðsson 2, Andri Hjartar Grétarsson 2, Guðmundur Guðmundsson 2, Sverrir Eyjólfsson 1 og Finnur Jónsson 1.
Í markinu var Sigurður Ólafsson sterkur með 13 skot varin, 1 vítakast.
Mörk Vals: Þorgrímur Smári Ólafsson 6, Atli Már Báruson 5, Orri Freyr Gíslason 3, Sveinn Aron Sveinsson 3 (1 víti), Elvar
Friðriksson 3, (1 víti), Vignir Stefánsson 3, Ægir Hrafn Jónsson 2, Finnur Ingi Stefánsson 2, Bjartur Guðmundsson 2, Geir Guðmundsson 1 og
Ásbjörn Stefánsson 1 mark.
Hlynur Morthens varði 5 skot áður en hann var sendur af velli með rautt spjald en Lárus Ólafsson tók við og varði 10 skot.
Mótinu lýkur í dag, laugardag með eftirfarandi leikjum:
Kl. 10:00 Stjarnan – Akureyri
Kl. 11:30 Valur – Fram
Kl. 13:30 Fram - Stjarnan
Kl. 15:00 Akureyri – Valur