Flott ferð suður hjá yngra ári 5. flokks kvenna

Stelpurnar í 5. flokki kvenna skelltu sér suður á föstudagsmorgunn. Fóru að vísu heldur fáliðaðar enda nokkrar sem höfðu forfallast síðustu dagana fyrir ferð en hugtakið fámennt en góðmennt átti svo sannarlega við að þessu sinni. 

KA/Þór1 spilaði í 2. deild eftir að hafa fallið úr 1. deild á síðasta móti. Stelpurnar spiluðu fyrsta leik gegn Gróttu og úr var frábær handboltaleikur þar sem KA/Þór vann að lokum þriggja marka sigur. Næsti leikur var gegn Fylki2, þar spiluðu stelpurnar virkilega góðan handbolta en markvörður Fylkis reyndist þeim óþægilega erfiður og þrátt fyrir að ná að spila sig í færi í nánast hverri einustu sókn skoruðu KA/Þór stelpur aðeins 5 mörk í öllum leiknum. Hinum meginn var vörn norðanstúlkna þó virkilega grimm og Heiðbjört fór hamförum þar fyrir aftan og skoruðu Fylkisstelpur því einnig bara fimm mörk. Stórmeistarajafntefli því niðurstaðan. Daginn eftir spiluðu stelpurnar við ÍBV og HK þar sem þær unnu þægilega sigra. Síðasti leikurinn var gegn ÍR stelpum. ÍR spilaði framliggjandi 3-3 vörn og voru vel studdar áfram af dyggum foreldrum úr Breiðholtinu. Þetta virtst slá norðanstúlkur algjörlega út af laginu og áttu þær virkilega slæman leik að þessu sinni. Þær sýndu þó karakter í byrjun seinni hálfleiks, náðu að vinna sig aftur inn í leikinn með því að þétta vörnina en það dugði þó ekki til að þessu sinni og ÍR fór með sanngjarnan sigur af hólmi. 

Niðurstaðan því 2. sæti og 1. deildin klár á næsta móti sem er auðvitað þar sem við viljum vera. Til að þess að halda sæti sínu þar á næsta móti þurfa stelpurnar að halda áfram að æfa vel og vera duglegar að mæta á æfingar.

Markmið KA/Þór2 er eingöngu að spila handbolta og læra enda eingöngu uppbyggt af stelpum sem byrjuðu að æfa á þessu ári. Þrátt fyrir það sýndu stelpurnar skemmtilega takta á mótinu og gáfu mjög góð fyrirheit um framhaldið. Fyrsti leikurinn var gegn Fram2 þar sem stelpurnar leiddu mest allan leikinn en misstu leikinn í lokin og náði Fram að stela öðru stiginu, jafntefli niðurstaðan. Annar leikurinn var gegn FH2, þar mættu stelpurnar eitthvað illa stemmdar til leiks og áttu í raun aldrei möguleika. FH var skrefi á undan allan leikinn og illa gekk að ná takti í leik KA/Þórs2.
Síðasti leikurinn var gegn liði Vals sem hafði unnið báða leikina sína mjög sannfærandi og því ljóst að þessi síðasti leikur yrði erfiður. Norðanstelpum gat þó ekki verið meira sama um allt slíkt og úr varð hörkuleikur þar sem KA/Þór hafði yfirhöndina meiri hluta leiks. Það var ekki fyrr en undir lok leiks sem Valur jafnaði og seig fram úr. Vissulega svekkjandi tap en frábær leikur hjá KA/Þór2 engu að síður.

Það er mikill handbolti í þessum stelpum en þær þurfa að halda áfram að læra og hlusta. Sökum fáliðunar þurftu stelpur úr KA/Þór2 að spila með KA/Þór1 og er óhætt að segja að þær hafi leyst það hlutverk stórkostlega. Bæði lið geta verið stolt af sinni frammistöðu og mega því bera höfuðið hátt eftir þessa helgi.

 

Kv. Þjálfarar