Í dag mættust KA/Þór og FH í 3. flokki kvenna en leikið var í KA-heimilinu. Stelpurnar í KA/Þór mættu vel stemmdar í leikinn þar sem þær ætla sér í úrslitakeppnina og þurfa því að næla sér í sem flest stig í þeim leikjum sem eftir eru.
Liðin höfðu mæst einusinni áður í vetur en sá leikur var í bikarkeppninni í 32-liða úrslitum og þá hafði FH betur 29-28. Nú voru stelpurnar hinsvegar á því að sigra. Jafnt var á með liðunum fyrstu 15 mínúturnar eða svo en þá seig KA/Þór aðeins framúr og náði þriggja marka forustu sem stelpurnar héldu þar til hálfleiksflautan gall. Stóðu leikar því 11-8 í hálfleik.
Stelpurnar reyndu svo að halda forskotinu þegar seinni hálfleikurinn byrjaði og eins og glöggir menn átta sig á þá gengur það yfirleitt ekki. Því komst FH inn í leikinn aftur og náði að jafna í stöðunni 16-16. KA/Þór fór því að spila betur og náðu aftur að komast yfir og juku muninn rólega út hálfleikinn. Leiknum lauk með fjögurra marka sigri KA/Þór, 23-19.
Stelpurnar eru að fikra sig ofar í töflunni en þær eiga einmitt FH aftur næstu helgi í Kaplakrika og þurfa nauðsynlega að fá sigur í þeim leik.
Markaskor KA/Þór í leiknum: Arna Kristín Einarsdóttir 6, Birta Fönn Sveinsdóttir 5, Laufey Lára Höskuldsdóttir 4, Harpa Rut Jónsdóttir 3, Rakel Ösp Sævarsdóttir 3, Aldís Anna Höskuldsdóttir 1 og Stefanía Theodórsdóttir 1.