Frábær sigur KA/Þórs á Ásvöllum

Handbolti
Frábær sigur KA/Þórs á Ásvöllum
2 geggjuð stig í hús!

KA/Þór gerði sér lítið fyrir og vann góðan 23-25 sigur á Haukum að Ásvöllum er liðin mættust í gær. Leikurinn var liður í 4. umferð Olís deildar kvenna en fyrir leikinn var okkar lið með 2 stig en Haukar voru enn án stiga og því ansi mikilvægt fyrir okkar lið að sækja sigurinn til að skilja Haukaliðið eftir.

Jafnt var á með liðunum fyrstu mínútur leiksins en þá kom góður kafli hjá stelpunum sem komust í 4-7. Heimakonur jöfnuðu hinsvegar strax í 7-7 og voru þá 10 mínútur eftir af fyrri hálfleik. Stelpurnar gerðu þá virkilega vel í að keyra yfir Haukana og leiddu 9-15 í hléinu.

Fyrri hálfleikurinn var virkilega vel spilaður hjá okkar liði og ljóst að fá lið ættu möguleika gegn stelpunum í þeim ham sem þær voru í, sérstaklega á lokakafla hálfleiksins.

Fyrsta mark síðari hálfleiks var okkar og munurinn því orðinn 7 mörk og ekki margir sem reiknuðu með að spenna yrði í leiknum. En heimakonur gáfust ekki upp og á sama tíma fóru stelpurnar að verja forskotið í stað þess að halda áfram að keyra yfir Haukaliðið.

Þegar fimm mínútur lifðu leiks var munurinn skyndilega orðinn eitt mark, 21-22. Stelpurnar náðu að koma í veg fyrir að Haukarnir næðu að jafna metin og munaði þar mest um vítakast sem Matea Lonac varði á lokamínútunni. Á lokasekúndunum skoraði svo Rakel Sara Elvarsdóttir lokamark leiksins og tryggði 23-25 sigur KA/Þórs.

Frábær 2 stig í hús staðreynd þar sem frammistaða fyrri hálfleiks skipti sköpum. Einnig verður að hrósa liðinu fyrir að ná að halda haus þegar allt stefndi í að Haukarnir væru að snúa leiknum. Stelpurnar eru því komnar með 4 stig eftir fyrstu fjóra leikina og eru í 4. sæti deildarinnar. Á sama tíma eru Haukar enn án stiga og kæmi lítið á óvart að þessi stig gætu talið ansi mikið þegar upp verður staðið í lok vetrar.

Ásdís Sigurðardóttir var markahæst með 5 mörk, Martha Hermannsdóttir 4, Martina Corkovic 4, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 4, Katrín Vilhjálmsdóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 3 og Anna Þyrí Halldórsdóttir gerði 2 mörk auk þess að sækja fjögur vítaköst á línunni. Þá varði Matea Lonac 9 skot í leiknum.

Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Val á fimmtudaginn og hvetjum við alla sem geta til að mæta í KA-Heimilið og styðja stelpurnar til sigurs gegn sterkasta liði landsins um þessar mundir.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is