Fullt hús hjá stelpunum í 4. flokki um helgina

Stelpurnar í 4. flokki kvenna fóru suður um helgina og spiluðu þar tvo leiki.
Á föstudagskvöldinu var spilað við lið Fjölnis og reyndist sigurinn nokkuð auðveldur fyrir KA stelpur, 27-13. Þær sem eru nýbyrjaðar að æfa fengu fínan spiltíma í þessum leik og stóðu sig með prýði auk þess sem þær „reyndari" stóðu sig með miklum sóma.


Á laugardeginum mættu KA stelpur Fylkisstúlkum í hörkuleik. KA var yfir allan leikinn en náði aldrei að stinga Fylki af. KA spilaði virkilega góða vörn og sóknarlega voru þær síógnandi en aragrúi af dauðafærum fór forgörðum í leiknum. Í lokin brugðu Fylkisstelpur á það ráð að taka maður á mann og virkaði það herbragð næstum því en sem betur fer innbyrtu KA stelpur sanngjarnan sigur á sprækum Fylkisstelpum 13-14.

Niðurstaðan eftir helgina eru því fjögur stig og er varla hægt að biðja um meira en það.

4. flokkur kvenna lýkur þátttöku sinni á Íslandsmótinu með leik gegn Haukum í KA heimilinu klukkan 13 næstkomandi laugardag.