Fyrsta Evrópuverkefnið í 17 ár hjá strákunum

Handbolti

Karlalið KA í handbolta er mætt til Austurríkis þar sem strákarnir mæta liði HC Fivers WAT Margareten í EHF European Cup. Báðir leikir liðanna fara fram í Austurríki og mætast liðin á föstudag og laugardag. Þetta verða 26. og 27. evrópuleikur karlaliðs KA en félagið á ríka sögu í Evrópukeppnum.

Það er heldur betur eftirvænting fyrir leikjunum en þetta verða fyrstu Evrópuleikir KA í handbolta karla frá árinu 2005 en þá keppti liðið í Áskorendakeppni Evrópu. KA liðið sló þá út Georgíska liðið Mamuli Tbilisi í 32-liða úrslitum keppninnar eftir tvo afar sannfærandi sigra í KA-Heimilinu 45-15 og 50-15. Í 16-liða úrslitum mætti KA svo Rúmenska liðinu Steaua Bucuresti og vann glæstan 24-23 sigur í fyrri leiknum á heimavelli en Rúmenarnir unnu 30-21 sigur í sínum heimaleik og fór því áfram í næstu umferð.

Tveir leikmenn úr KA liðinu á þessum tíma taka þátt í verkefni helgarinnar en Ragnar Snær Njálsson leikur í vörn liðsins og þá stýrir Jónatan Magnússon liðinu. Þá lék Andri Snær Stefánsson einnig með KA liðinu en hann stýrir kvennaliði KA/Þórs í dag.

Strákarnir eru búnir að taka æfingu úti og eru hæstánægðir með aðstöðuna auk hótelsins sem gist er á. Vel er hugsað um liðið en öflugt fylgdarlið hélt út með strákunum og tók Siguróli Magni Sigurðsson hann Ragnar Snæ í smá viðtal um komandi verkefni.

Fyrri leikurinn er á föstudeginum klukkan 19:30 á staðartíma eða 17:30 að íslenskum tíma. Eins og staðan er núna er útlit fyrir að leikurinn verði ekki sýndur beint en síðari leikurinn sem er klukkan 16:15 að íslenskum tíma á laugardeginum verður sýndur beint á ORF Sport+.

Heimasíða ORF

HC Fivers er með öflugt lið en liðið er í 3. sæti í Austurrísku deildinni með 12 stig af 14 mögulegum og ljóst að afar krefjandi verkefni en um leið spennandi bíður strákanna okkar.

Eins og áður segir verða þetta leikir númer 26. og 27. í Evrópu hjá karlaliði KA í handbolta en KA var til að mynda fyrsta íslenska liðið til að leika í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu veturinn 1997-1998. Veturinn 1996-1997 komst liðið í 8-liða úrslit Evrópukeppni Bikarhafa en féll úr leik gegn stórliði Veszprém en stórbrotinn 32-31 sigur í KA-Heimilinu dugði ekki til að komast áfram.

Fyrstu Evrópuleikina lék lið KA hinsvegar veturinn 1995-1996 þegar KA sló út Viking Stavanger með 27-20 sigri í KA-Heimilinu eftir 24-23 tap í Noregi í fyrri leiknum. Fór liðið í 16-liða úrslit keppninnar en féll þar naumlega úr leik gegn VSZ Kosice frá Slóvakíu eftir 33-28 sigur í KA-Heimilinu en 31-24 tap í útileiknum reyndist dýrkeypt.

Listi yfir Evrópuleiki KA í handbolta


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is