Góðir sigrar hjá KA/Þór

Á laugardaginn mættust KA/Þór og Víkingur í Víkinni og fóru stelpurnar í KA/Þór með öruggan fjórtán marka sigur, 22-36.

Í hálfleik var munurinn orðinn tíu mörk, 7-17 og ljóst í hvað stefndi. Arna Valgerður Erlingsdóttir skoraði 8 mörk fyrir KA/Þór, Arndís Heimisdóttir skoraði 6 mörk og þær Katrín Vilhjálmsdóttir og Martha Hermannsdóttir komu næstar með 5 mörk hvor.


Arna Valgerður var öflug gegn Víkingum

Þar áður lék KA/Þór gegn HK hér á Akureyri og gerðu heimastúlkur nánast út um leikinn í fyrri hálfleik 17-10 en gestirnir úr HK klóruðu í bakkann í seinni hálfleik. Það dugði þó ekki og fór KA/Þór með góðan sigur 32-29.

Ásdís Sigurðardóttir fór á kostum í leiknum og skoraði 10 mörk, Arna Valgerður Erlingsdóttir skoraði 9, Inga Dís Sigurðardóttir og Martha Hermannsdóttir gerðu 4 mörk hvor, Unnur Ómarsdóttir 3 og Emma Havin Davoody 2 mörk.


Ásdís lét heldur betur finna fyrir sér gegn HK

Eftir þessa leiki er KA/Þór í 7. sæti deildarinnar með 11 stig, sex stigum á undan HK sem er í 8. sætinu.