KA - HK A-lið
Strákarnir stóðu sig allir mjög vel í dag, það er í raun sama hvort verið er að ræða um vörn eða sókn. KA byrjaði leikinn af miklum krafti og má í raun segja að þeir hafi tekið öll völd á vellinum strax frá byrjun. Vörnin vann mjög vel með þá Finn og Daníel í fararbroddi og unnu þeir marga bolta með mikilli barráttu. Finnur stýrði hraðaupphlaupunum sem og sókninni af miklu öryggi og skoraði mörg góð mörk sjálfur. Bræðurnir Kristján og Bjarni voru síógnandi og skiluðu mjög góðum leik báðir tveir, Bjarni tók sig svo til undir lok leiks og spilaði á línunni og leysti hann það hlutverk mjög vel.
Hornamennirnir stóðu sig allir líka mjög vel og eins og áður hefur komið fram stóð liðið sig í heild mjög vel. Það er ekki hægt að skrifa um þennan leik án þess að minnast á Hjalta í markinu en hann stóð sig frábærlega og sýndi að þarna er á ferðinni markvörður sem á framtíðina fyrir sér.
KA - HK í flokki B2 liða
Leikurinn byrjaðu rólega og voru KA strákarnir smá stund að finna sig í vörninni og til að byrja með var sóknin frekar tilviljunarkennd. En eftir að strákarnir fundu taktinn þá var þetta aldrei spurning. Vörnin byrjaði að vinna rétt, vann ófáa bolta og liðið skoraði mörg mörk úr hraðaupphlaupum. Þegar leið á leikinn varð mótspyrnan ekki mikil og strákarnir gengu á lagið og unnu stóran sigur sem þeir áttu fyllilega skilinn. Sóknarlega þá stóðu þeir Hákon og Óli sig virkilega vel og Elmar átti líka fína spretti, Allt liðið spilaði í dag fínan varnarleik og er óþarfi að tína einhvern sérstaklega út. Það er gaman að sjá hversu mikið liðið er búið að bæta sig á milli leikja enda hafa strákarnir flestir verið mjög duglegir að æfa og tekið vel á því.