Stelpurnar í 3. flokki kvenna spiluðu gegn Stjörnunni í KA heimilinu í dag.
Stjarnan hefur verið að bæta sig jafnt og þétt í síðustu umferðum á meðan KA/Þór stelpur hafa rokkað
svolítið í spilamennsku. Ljóst var að leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir heimastúlkur enda eru þær í harðri
baráttu um 5. sætið í deildinni við FH og Fylki.
Leikurinn byrjaði vel og höfðu heimastúlkur undirtökin fyrstu 20 mínúturnar í hálfleiknum. KA/Þór lék á alls oddi
á þeim tíma, stóð vörnina vel og keyrði vel í bakið á Stjörnu stelpum. Fyrir aftan vörnina stóð Kolbrún vaktina
með sóma og varði þá bolta sem á markið kom. Á þessum kafla náðu stelpurnar mest sex marka forustu en við það slaknaði
á klónni og kæruleysisleg mistök komu í kjölfarið. Það hægðist á upphlaupunum, vörnin fór að leka og sóknin
hálf stirð. Staðan 16-16 í hálfleik.
Seinni hálfleikur byrjaði síðan eins illa og hann gat byrjað. Vörnin lagaðist ekki og mörg góð færi fóru í súginn.
Allt í einu var Stjarnan komin með fimm marka forskot og einungis tíu mínútur búnar af seinni hálfleik. Við það vöknuðu
heimastúlkur og tóku úr fyrsta gír. Klippt var á aðalskyttu gestanna sem hafði reynst heimaliðinu einstaklega erfið og sóknin fór
að ganga betur. Með miklu harðfylgi tókst KA/Þór að jafna og komast tveimur mörkum yfir þegar þrjár mínútur voru eftir og
voru með boltann. Síðustu þrjár mínúturnar eru eflaust mínútur sem þær vilja gleyma sem fyrst. Kjarkurinn í sókninni
hvarf, vörnin missti dampinn og Stjarnan gekk á lagið. Stjarnan nær að jafna 28-28 þegar mínúta er eftir. KA/Þór fer í sókn og
skorar þegar hálf mínúta er eftir. Stjarnan fer upp, vörnin nær að standast fyrsta áhlaupið en þær gleyma sér í nokkrar
sekúndur þegar lítið var eftir og fyrir vikið fá Stjörnustelpur vítakast þegar tíminn er að renna út. Úr því
skoruðu þær og grátlegt jafntefli staðreynd.
Heilt yfir var leikurinn ekki nægilega góður hjá heimastúlkum að þessu sinni. Þær sýndu inn á milli góða takta en
voru of fljótar að missa dampinn og falla niður á plan sem er ekki þeim samboðið. Stelpurnar sýndu mikinn karakter með því að
gefast ekki upp í vondri stöðu og koma til baka og ná yfirhöndinni en þó vantaði upp á að klára leikinn.
Þó er hægt að taka jákvæða punkta út úr þessum leik. Vinstri vængurinn var mun líflegri heldur en oftast nær
í vetur. Iðunn spilaði virkilega vel í fyrri hálfleik og Þrúður leysti hana af með miklum sóma í þeim síðari.
Aldís átti sinn besta leik í vetur og skilaði góðum mörkum og fiskaði fjögur víti. Hægri vængurinn stóð fyrir
sínu sóknarlega og réðu Stjörnustelpur illa þær Steinþóru og Kollu. Hin bráðefnilega Laufey Lára var að spila sinn
fjórða leik um helgina og var eðlilega heldur þreytt en spilaði engu að síður vel.
Varnarlega voru stelpurnar að spila allt of misjafnlega yfir leikinn. Enginn dampur komst á varnarleikinn og baráttan var ekki eins og þær hafa sýnt á
köflum í vetur og því fór sem fór.
Kolbrún Helga byrjaði leikinn með látum og varði vel en missti síðan hausinn í síðari hálfleik.
Stelpurnar eiga eftir að spila fjóra erfiða útileiki á næstu tveimur helgum. Þeir leikir eru því algjörir úrslitaleikir
varðandi baráttuna um 5. sætið í deildinni. Þær hafa sýnt það í vetur að þær geta unnið hvaða lið sem er
í þessari keppni en þær hafa einnig sýnt að þær geta tapað fyrir öllum liðum þannig að ekkert er útséð
varðandi framhaldið.