Það verður heldur betur líf og fjör í handboltanum á Akureyri næstu dagana. Meistaraflokkur Akureyrar tekur á móti HK í tveim leikjum sem báðir eru gríðarlega mikilvægir. Liðin mætast fyrst í Olís deildinni á fimmtudagskvöldið klukkan 19:15 og aftur á sunnudaginn klukkan 16:00 en sá leikur er í 16 liða úrslitum Coca-Cola bikarsins.
2. flokkur Akureyrar leikur sömuleiðis tvo leiki um helgina, báða gegn Haukum. Fyrri leikurinn er á laugardaginn klukkan 14:00 og seinni leikurinn er á sunnudagsmorguninn klukkan 10:30.
Allir þessir leikir verða í Íþróttahöllinni og getum við lofað miklu fjöri í Höllinni.
Lið HK hefur verið að bíta hraustlega frá sér í síðustu leikjum eftir erfiða byrjun í deildinni og vann t.d. góðan sigur á Fram liðinu í næstsíðustu umferð. Síðasti leikur þeirra var útileikur gegn ÍR þar sem HK hafði yfirhöndina lengst af en gaf eftir á lokamínútum leiksins og missti þá ÍR ingana fram úr sér.
Í liði HK hafa þrír leikmenn verið langatkvæðamestir í markaskorun það sem af er vetri. Atli Karl Bachmann er þeirra markahæstur með 47 mörk, Leó Snær Pétursson með 45 mörk og Jóhann Reynir Gunnlaugsson sem kom til liðs við HK frá Víkingum er með 40 mörk.
Í sigurleik HK á Fram fóru þeir Atli Karl og Leó Snær á kostum og skoruðu 14 af 22 mörkum liðsins og voru báðir valdir í úrvalslið umferðarinna hjá mbl, Leó Snær sem hægri hornamaður en Atli Karl sem vinstri skytta og jafnframt leikmaður umferðarinnar. Það er því ljóst að þeir tveir eru lykilmenn í HK liðinu. En það eru fleiri leikmenn sem hafa risið upp og heldur betur tekið af skarið. Þannig réðu Haukarnir ekkert við Jóhann Reyni sem raðaði inn 10 mörkum í þeim leik og gegn ÍR í síðustu umferð var skyttan Eyþór Magnússon markahæstur með 8 mörk.
Flestir leikmanna HK eru ungir og sprækir en reynsluboltinn Ólafur Víðir Ólafsson er liðinu gríðarlega mikilvægur enda hreint magnaður leikmaður.
Í markinu stendur annar reynslubolti, Björn Ingi Friðþjófsson og Helgi Hlynsson sem kom frá Selfossi fyrir þetta tímabil.
Nýr þjálfari tók við liðinu í sumar, Samúel Ívar Árnason en hann tók sín fyrstu handboltaskref á Akureyri en seinna lék hann með HK, Haukum og ÍBV og einnig erlendis þar sem hann sneri sér að þjálfun og kemur þaðan til HK.
Akureyrarliðið átti að leika gegn ÍBV um síðustu helgi en vegna veðurs var ekki flogið til Eyja og ljóst að sá leikur verður ekki settur á fyrr en undir lok janúar. Síðasti leikur Akureyrar var því sigurleikurinn gegn ÍR hér í Höllinni, það var í sömu umferð og þegar HK vann Fram og rétt að rifja upp að Morgunblaðið valdi einmitt þá Jovan Kukobat og Valþór Guðrúnarson úr Akureyrarliðinu í úrvalslið umferðarinnar. Það verða því fjórir leikmenn úr því liði á fjölum Íþróttahallarinnar á fimmtudaginn (og væntanlega á sunnudaginn líka).
Liðin mættust í Kópavoginum þann 10. október og þar fór Akureyri með sex marka sigur en HK liðið hefur sýnt í síðustu leikjum að það er sýnd veiði en ekki gefin og bæði lið munu örugglega leggja allt í sölurnar í þessum leik.
Eins og áhorfendur vita var stemmingin rafmögnuð í Höllinni í síðasta heimaleik og ástæða til að hvetja alla áhugamenn um að koma og skapa enn öflugri stemmingu enda hvert stig afar dýrmætt þessa dagana. Leikurinn hefst fimmtán mínútum seinna en vanalega eða klukkan 19:15 á fimmtudaginn.