Handbolti: 2.deild kvenna KA/Þór – Valur

KA/Þór og Valur áttust við á föstudaginn í 2.deild í handbolta. Leikurinn átti að vera á laugardag en var færður vegna bikarúrslitaleiks Akureyrar. Jafnræði var með liðunum til að byrja með en svo sigu heimastúlkur framúr með góðum sóknarleik , þar sem Martha Hermannsdóttir skoraði mikið og góðri markvörslu Kolbrúnar Helgu Hansen. Staðan í hálfleik var 22-14 fyrir KA/Þór. Í síðari hálfleik jókst munurinn upp í tíu mörk um miðjan hálfleikinn og öruggur sigur KA/Þórs virtist í höfn. Þá greip um sig mikið kæruleysi og Valsstúlkur röðuðu inn mörkum úr hraðaupphlaupum og munurinn minnkaði í fimm mörk. Sigurinn var hins vegar aldrei í hættu þrátt fyrir þetta og leiknum lauk 40-35.

Bestar í liði KA/Þórs voru Martha Hermannsdóttir sem skoraði 14 mörk og Kolbrún Helg Hansen sem varði mjög vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Einnig skoraði Ásdís Sigurðardóttir 8 mörk, en hún er nýkomin af stað aftur eftir barnsburð. Aðrir markaskorara voru Erla Tryggvadóttir 6 mörk, Jóhanna Snædal 4 mörk, Emma Sardarsdóttir 3 mörk, Arndís Heimisdóttir og Kolbrún Einarsdóttir 2 mörk og Kolbrá Ingólfsdóttir 1 mark.

Í Valsliðinu voru fjórar öflugar stúlkur sem héldu leik þeirra á floti en það voru Sigurlaug Jónadóttir sem skoraði 10 mörk, Dagný og Drífa Skúladætur skoruðu 9 mörk hvor og Arna Grímsdóttir gerði 6 mörk.