Haukasigur eftir hörkuleik

Handbolti
Haukasigur eftir hörkuleik
Flottur leikur þrátt fyrir tapið (Þórir Tryggva)

KA/Þór tók á móti Haukum í síðasta heimaleik liðsins fyrir jólafrí í Olís deild kvenna. Stelpurnar komu mörgum á óvart er þær unnu 23-24 sigur í fyrri viðureign liðanna og var ljóst að lið gestanna hugði á hefndir. Haukar voru á miklu skriði fyrir leikinn og höfðu unnið síðustu fjóra leiki sína.

Liðin skiptust á að leiða leikinn í upphafi og stefndi í gríðarlega baráttu um stigin tvö enda klárt að mikilvæg stig væru í húfi. Deildin er að skiptast og bæði lið þurftu klárlega á sigri að halda til að halda í við toppbaráttuna.

Mikill hraði einkenndi leikinn í upphafi og var staðan 5-5 eftir fyrstu tíu mínútur leiksins. Þá kom hinsvegar sterkur kafli hjá gestunum sem komust í 5-9 og síðar í 7-12. Þarna virtust gestirnir ætla að keyra yfir okkar lið enda refsuðu þær grimmt fyrir hver mistök og keyrðu hratt í bakið á okkar liði.

En stelpurnar náðu áttum sínum og lokuðu vörninni, í kjölfarið skoruðu Haukar ekki mark í rúmar níu mínútur og KA/Þór minnkaði muninn í 11-12 og mikil stemning í KA-Heimilinu. Ódýrt mark yfir allan völlinn í autt mark kom gestunum aftur á sporið og hálfleikstölur voru 13-15.

Tímalína fyrri hálfleiks

Spennan fór aldrei úr síðari hálfleiknum þrátt fyrir að Haukaliðið leiddi lengst af með fjórum mörkum. Okkar lið náði að minnka muninn í tvö mörk er tíu mínútur lifðu leiks og úr varð hin mesta skemmtun á lokamínútunum.

Á lokamínútunni sjálfri var munurinn kominn niður í eitt mark, 27-28, og enn tími til að ná boltanum og skora jöfnunarmarkið. Það leit út fyrir að stelpunum hefði tekist að stela boltanum en hann datt á endanum niður í hornið og það nýtti Haukaliðið sér og kláraði leikinn. Lokatölur 27-29 og tap staðreynd.

Tímalína seinni hálfleiks

Í heildina litið var sigur gestanna sanngjarn en frammistaða okkar liðs var þó mjög jákvæð. Munurinn á liðunum var aðallega sá að Haukarnir gerðu færri mistök og voru betri í því að keyra hratt og fá þannig auðveld mörk.

Framundan er útileikur gegn ógnarsterku liði ÍBV á föstudaginn og svo jólafrí. Það verður gaman að sjá hvað stelpurnar ná að gera í Eyjum enda hefur liðið allt að vinna í þeim leik. Byrjunin á tímabilinu hefur verið mjög flott og ekki að sjá að það sé nýliðaskrekkur í hópnum nú þegar deildin er að verða hálfnuð.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is