Á
laugardaginn klukkan 16:00 leikur meistaraflokkur KA/Þór sinn annan heimaleik í KA heimilinu. Andstæðingurinn að þessu sinni er Fylkir úr
Árbænum. KA/Þór liðið hefur sýnt það í þeim tveim leikjum sem búnir eru að það býr heilmikið í
liðinu og með góðum stuðningi áhorfenda og norðlenskum baráttuanda er heimavöllurinn illvinnandi vígi.
Kvennalið Fylkis
lauk keppni í N1- deildinni á síðustu leiktíð í neðsta sæti. Fylkir hefur á að skipa ungu og efnilegu liði sem talsverð
rækt hefur verið lögð í að byggja upp hægt og bítandi. Sterkir erlendir leikmenn hleyptu lífi í Fylkisliðið fyrir nokkrum misserum og
liðið skilaði sér m.a. í úrslitaleik bikarkeppninnar og stríddi sterkustu liðunum í deildinni.
Fylkisliðið missti hins vegar svolítið dampinn í framhaldinu. Sterkir leikmenn hurfu á braut, bæði lögðu nokkrir skóna á hilluna og svo urðu forráðamenn Fylkis áþreifanlega varir við það að stærri félögin, sem oftar en ekki eru að berjast um titlana, hafa mikið og sterkt aðdráttarafl. Fylkir fékk reyndar til liðs við sig nokkra býsna álitlega leikmenn sem ekki fengu mörg tækifæri hjá hinum svonefndu stærri félögum.
Ekki má vanmeta efniviðinn sem er til staðar og Árbæingar virðast gera sér ágæta grein fyrir því að góðir hlutir gerast hægt.
Reynir Þór Reynisson krefst mikils af liðinu og leikmönnum sínum í vetur og vill fara enn nær efstu fjórum liðunum.
„Væntingar okkar eru þær að brúa bilið á milli okkar og þessara fjögurra efstu. Stjarnan, Valur, Haukar og Fram hafa einokað þetta síðustu árin og okkar stefna er sú að minnka þetta bil og leggja á okkur nógu mikla vinnu til að það takist,“ segir Reynir og vill að leikmenn bæti sig. „Mínar væntingar til leikmanna eru þær að þeir bæti sig bæði andlega og líkamlega.“
Fagna fjölgun liða
Eins og oft vill gerast hafa framúrskarandi leikmenn „minni“ liðanna freistast til þess að fara til þeirra
félaga þar sem meiri möguleikar eru á titli og hefur Fylkir ekki farið varhluta af því. „Það eru töluverðar breytingar á
hópnum, hann hefur aðeins þynnst en það eru miklir hæfileikar í honum. Við misstum fjóra leikmenn frá því í fyrra en
höfum fengið til baka þrjár. Við vorum að fá Hildi Harðardóttur frá Stjörnunni fyrir stuttu en að mestu leyti er þetta sami
kjarninn og í fyrra.“
Eitt lið hefur bæst við deildina frá því á síðasta tímabili og þurfa nú öll félögin að ferðast norður til Akureyrar í það minnsta einu sinni í vetur. „Ég fagna því. Mér fannst of lítið spilað í fyrra, þetta auðveldar leikmönnum að halda sér við efnið og vonandi bætum við okkur. Mér finnst það bara gleðiefni að hægt sé að halda úti níu liða deild en við verðum bara að sjá til hvernig það gengur.“
Um liðið:
Fylkir átti góðan unglingafokk og ætlaði sér stóra hluti í framhaldinu. Góðir hlutir gerast
hægt og Fylkir er að sniglast upp á við í litlum skrefum. Gæti orðið besta liðið í neðri hlutanum á mjög tvískiptu
móti.
Styrkleikar: Samspilaður hópur sem hefur verið lengi saman.
Veikleikar: Fyrst og fremst ekki nógu góðir einstaklingar til að ýta við topp liðunum.
Lykilleikmaður: Varnarleikurinn verður að vera frábær; það byggir á hópvinnu sem þýðir að allir eru lykilleikmenn hverju sinni.