Hörkuleikur hjá KA/Þór gegn meistaraefnum Fram

KA/Þór og Fram mættust í kvöld í KA-heimilinu í 1. umferð N1 deildar kvenna í handbolta.
Fram er spáð Íslandsmeistaratitlinum á ár en KA/Þór 8. sætinu.  Akureyrarstelpurnar báru þó enga sérstaka virðingu fyrir meistaraefnunum og komu öflugar til leiks og náðu 3-1 forystu í upphafi leiksins.

Fram sýndi þá mátt sinn og komst yfir, 3-4 og héldu frumkvæðinu í leiknum sem var þó í járnum lengst af í fyrri hálfleik og staðan 10-12 Fram í vil þegar tíu mínútur voru til leikhlés. Þá kom slæmur kafli þar sem Fram stúlkur röðuðu inn mörkum úr hraðaupphlaupum og voru með sjö marka forystu 11-18 í hálfleik.

KA/Þór hófu seinni hálfleik með látum og minnkuðu muninn í 14-18 áður en Fram komst á blað. Munurinn jókst á ný en stelpurnar sýndu mikinn karakter og börðust áfram af krafti og í stöðunni 21-25 var komin spenna í leikinn en Fram stelpur héldu haus og fóru með fimm marka sigur 24-29.

KA/Þór sýndu það í þessum leik að þær eru sýnd veiði en ekki gefin og gaf frammistaða þeirra í kvöld til kynna að engir geta bókað sigur gegn þeim á heimavelli.

Inga Dís Sigurðardóttir lék nú sem línumaður og fór á kostum. Arna Valgerður Erlingsdóttir var ógnandi fyrir utan og sömuleiðis átti Unnur Ómarsdóttir fína spretti í sókninni.

Mörk KA/Þór: Arna Valgerður Erlingsdóttir 9, Inga Dís Sigurðardóttir 8, Unnur Ómarsdóttir 3, Ásdís Sigurðardóttir, Emma Havin Sardardóttir, Kara Rún Árnadóttir og Martha Hermannsdóttir 1 mark hver.

Selma Sigurðardóttir stóð í markinu lengst af og varði 11 skot. Lovísa Oktavía Eyvindsdóttir kom í markið á lokamínútunum.

Hjá Fram skoruðu: Karen Knútsdóttir 9, Eva Hrund Harðardóttir 6, Stella Sigurðardóttir 5, Hafdís Inga Hinriksdóttir 4, Anna María Guðmundsdóttir og Hildur Þorgeirsdóttir 2 mörk hvor en Ásta Birna Gunnarsdóttir og Marthe Sördal 1 mark hvor.
Í markinu varði Íris Björk Símonardóttir 13 skot en Helga Vala Jónsdóttir 2.

Í lok leiksins var Selma Sigurðardóttir valin leikmaður KA/Þór en Stella Sigurðardóttir úr liði Fram.

Næsti leikur KA/Þór er gegn FH og fer sá leikur fram í Hafnarfirði laugardaginn 10. október klukkan 16:00.

Myndin er fengin frá Vikudegi og sýnir Örnu Valgerði Erlingsdóttur brjótast í gegnum vörn Fram.