Íslandsbanki og kvennaráð KA/Þórs hafa gert með sér nýjan tveggja ára samstarfssamning og verður því áframhald á góðu samstarfi aðilanna en Íslandsbanki hefur verið einn af lykilbakhjörlum KA/Þórs undanfarin ár.
Stelpurnar í KA/Þór tryggðu sér sæti í deild þeirra bestu á síðustu leiktíð þar sem þær töpuðu ekki leik og unnu þar með sannfærandi sigur í Grill66 deildinni. Þær hafa svo byrjað nýjan handboltavetur af gríðarlegum krafti og eru einar á toppi Olísdeildarinnar með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leiki tímabilsins.
Liðið er að mestu skipað uppöldum stelpum úr starfi KA/Þórs og er það von okkar að halda því góða starfi áfram og er lykilþáttur í þeirri vegferð að njóta góðra samstarfsaðila eins og Íslandsbanka.
Stefán Guðnason formaður KA/Þórs og Jón Birgir Guðmundsson útibússtjóri Íslandsbanka á Akureyri undirrituðu samninginn góða og segjast báðir mjög spenntir fyrir því að byggja áfram á því góða starfi sem unnið er hjá stelpunum.