KA-1 sigraði 5. flokksmót helgarinnar

Handbolti
KA-1 sigraði 5. flokksmót helgarinnar
KA1 með gullverðlaunin sín!

Önnur túrnering vetrarins fór fram um helgina hjá yngra ári 5. flokks karla og kvenna í handbolta. Hjá strákunum senti KA tvö lið til leiks en hjá stelpunum senti KA/Þór eitt lið til keppni. Leikið var í Kópavogi og var mikil spenna hjá keppendum okkar fyrir helginni.

Hjá strákunum spilaði KA1 í 1. deild en KA2 í 2. deild en alls er keppt í fjórum deildum í heildina. Það var því ljóst að framundan væri gríðarlega erfitt mót og þyrftu strákarnir að vera einbeittir þegar fyrsti leikur var flautaður á kl. 8:00 í morgun.

Strax frá fyrstu mínútu gáfu strákarnir til kynna að þeir væru ekki bara mættir til að vera með heldur ætluðu sér eitthvað meira. KA2 riðu á vaðið og byrjuðu á að gera jafntefli við ógnarsterkt lið FH. KA1 fylgdu svo í kjölfarið og unnu glæsilegan 14-7 sigur á liði KR. Draumabyrjun á mótinu. Síðan skiptust liðin á að eiga góða leiki, sigrarnir féllu KA megin hjá liði 1 en lið 2 náði ekki að landa sigri þrátt fyrir flotta spilamennsku.

Þjálfarar strákanna eru þeir Stefán Árnason, Daði Jónsson og Arnór Ísak Haddsson.


Strákarnir í KA2 sýndu flotta frammistöðu í sínum leikjum

Seinasta leik mótsins spiluðu KA1 á móti Aftureldingu, hreinn úrslitaleikur um sigur í efstu deild. Þess má geta að Afturelding hefur verið sterkasta liðið í þessum aldursflokki undanfarin 3 ár og verkefnið því stórt. Leikurinn byrjaði vel fyrir okkar menn og snemma fyrri hálfleiks var staðan orðin 4-1 KA í vil. Þá hrökk Afturelding í gang og jafnaði leikinn, staðan 6-6 í hálfleik og leikurinn í járnum. Í byrjun seinni hálfleiks gekk ekkert upp hjá KA liðinu sóknarlega en á sama tíma gekk allt upp hjá Aftureldingu og var staðan orðin 9-7 þegar sjö mínútur lifðu leiks.

Þá skelltu KA menn í lás jöfnuðu leikinn í 9-9 þegar ein mínúta var eftir. KA skoruðu svo sitt tíunda mark þegar 20 sekúndur voru eftir og fórnuðu lífi og limum til þess að verja markið út tímann og sigur staðreynd. Gríðarlega flott mót hjá strákunum, bæði lið spiluðu vel og sýndu miklar framfarir. Það er nokkuð ljóst að framtíðin er björt hjá strákunum!


Stelpurnar stóðu fyrir sínu um helgina

Stelpurnar léku í A-riðli 2. deildar þar sem þær léku gegn FH, Fram og Stjörnunni. Fyrsti leikur var gegn Stjörnunni sem er með hörkulið og á endanum tapaðist leikurinn 6-13. En stelpurnar sýndu frábæran karakter og komu mjög sterkar til leiks gegn FH í næsta leik sem vannst 15-10.

Í lokaleik riðilsins vann liðið svo 11-5 sigur á Fram sem tryggði stelpunum hreinan úrslitaleik við Stjörnuna um sæti í 1. deild á næsta móti. Þrátt fyrir góðan leik þá reyndust Garðbæingar of sterkir og þær unnu því annan sigur á okkar liði. 2. sætið varð raunin sem er mjög flottur árangur og sýndu stelpurnar miklar framfarir á mótinu.

Þjálfarar stelpnanna eru þær Ásdís Guðmundsdóttir og Kristín Jóhannsdóttir.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is