KA bikarmeistari í 4. flokki yngri

Handbolti
KA bikarmeistari í 4. flokki yngri
Sigurgleðin var gríðarleg að leik loknum!

Strákarnir á yngra ári í 4. flokki léku í dag til úrslita í Coca-Cola bikarnum er þeir mættu FH í Laugardalshöllinni. Búist var við hörkuleik enda bæði lið í toppbaráttu í efstu deild í flokknum og má með sanni segja að andrúmsloftið í Höllinni hafi verið afar skemmtilegt.

KA liðið hafði haft töluvert fyrir því að komast í Höllina en strákarnir höfðu slegið út Fram og Hauka sem eru í efstu fjórum sætum deildarinnar á útivelli auk þess að slá ÍBV út í Vestmannaeyjum. Enda sást það strax frá upphafsflautinu að ekkert stress var í liðinu og strákarnir tóku strax yfirhöndina.

Fyrstu þrjú mörk leiksins voru KA liðsins og forskotið jókst er á leið fyrri hálfleikinn. Allt útlit var fyrir að strákarnir myndu fara með gott forskot inn í síðari hálfleikinn en FH-ingar náðu góðum endaspretti og staðan var því 9-7 í hléinu.

Stefán Árnason og Heimir Örn Árnason þjálfarar strákanna nýttu hálfleikinn vel í að koma strákunum aftur á beinu brautina og það var aldrei spurning í þeim síðari hvoru megin sigurinn myndi enda. Hvort sem var í vörn eða sókn hafði KA liðið mikla yfirburði og á endanum vannst 24-14 sigur.

KA er því Coca-Cola bikarmeistari í 4. flokki yngra árs og eru strákarnir svo sannarlega verðugir meistarar enda fóru þeir í gegnum öll sterkustu lið landsins í leið sinni að titlinum.

Skarphéðinn Ívar Einarsson var valinn maður leiksins en hann var einnig markahæstur með 12 mörk. Marinó Þorri Hauksson gerði 4 mörk, Jens Bragi Bergþórsson 3, Logi Gautason 3, Dagur Árni Heimisson 1 og Bjarki Jóhannsson 1. Jóhannes Geir Gestsson átti stórleik í markinu og varði 14 skot, þar af eitt vítakast og Vignir Otri Elvarsson varði tvö skot.

Bikarmeistarar KA í 4. flokki karla yngra ár:
Aftari röð f.v.: Heimir Örn Árnason, þjálfari, Dagur Árni Heimisson, Marinó Þorri Hauksson, Bjarki Jóhannsson, Stefán Þórarinn Sigurðsson, Jens Bragi Bergþórsson, Stefán Árnason, þjálfari.
Fremri röð f.v.: Hjalti Valsson, Magnús Dagur Jónatansson, Jóhannes Geir Gestsson, Skarphéðinn Ívar Einarsson, Vignir Otri, Elvarsson, Logi Gautason, Steinþór Snær Jóhannsson.

Við óskum strákunum hjartanlega til hamingju með titilinn og hlökkum svo sannarlega til að fylgjast áfram með framgöngu þeirra í vetur en þeir eru á toppi deildarinnar fyrir lokasprettinn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is