KA Íslandsmeistari í 4. flokki yngri

Handbolti
KA Íslandsmeistari í 4. flokki yngri
Íslands- og Deildarmeistarar í vetur! (mynd: HSÍ)

KA og Afturelding mættust í úrslitaleik Íslandsmótsins í 4. flokki karla yngri í dag en allir úrslitaleikir yngriflokka í handboltanum fóru fram í dag að Varmá í Mosfellsbæ. Lið Aftureldingar var því á heimavelli en þarna mættust tvö bestu lið landsins.

KA hafði tryggt sér Deildarmeistaratitilinn fyrr í vetur og það án þess að tapa leik. Afturelding tapaði einum leik í vetur en það var einmitt gegn KA í Mosfellsbænum. Fyrri leik liðanna á Akureyri lyktaði með jafntefli og munaði því aðeins tveimur stigum á liðunum í lok deildarkeppninnar.

Það tók strákana smá tíma að koma sér í gang og voru þeir 4-2 undir í upphafi en þá kviknaði á strákunum sem gerðu fjögur mörk í röð og þeir tóku frumkvæðið. Mikil spenna einkenndi fyrri hálfleikinn og var staðan jöfn 9-9 að honum loknum.

Strákarnir hófu svo síðari hálfleikinn gríðarlega vel, spiluðu frábæran varnarleik og nýttu færin vel í sókninni. KA gerði fyrstu þrjú mörk síðari hálfleiks og náði að skilja sig aðeins frá Mosfellingum. En lið Aftureldingar gafst ekki upp og náði að jafna metin skömmu síðar, strákarnir okkar sem eru þó öllu vanir héldu ró sinni og svöruðu aftur með góðum þriggja marka kafla.

Eftir það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda og strákarnir unnu að lokum afar sanngjarnan 15-20 sigur og standa því uppi sem Íslandsmeistarar auk þess að vera Deildarmeistarar. Bikarkeppnin fór ekki fram í vetur vegna Covid og unnu strákarnir því alla titlana sem í boði voru í vetur og það án þess að tapa leik.


Dagur Árni Heimisson var valinn maður leiksins

Dagur Árni Heimisson var markahæstur í liði KA með 7 mörk, Magnús Dagur Jónatansson gerði 5, Heiðmar Örn Björgvinsson 3, Hugi Elmarsson 3 og Aron Daði Stefánsson 2. Þá varði Óskar Þórarinsson 10 skot í markinu.

Stórkostlegur árangur hjá liðinu og við óskum strákunum sem og Stefáni Árnasyni og Heimi Erni Árnasyni þjálfurum þeirra til hamingju með þennan frábæra vetur. Liðið hefur leikið algjörlega frábærlega í vetur og liðsheildin mögnuð.

Íslands- og Deildarmeistarar KA í 4. flokki yngri:
Arnar Elí Guðlaugsson, Aron Daði Stefánsson, Benjamín Þorri Bergsson, Dagur Árni Heimisson, Guðmundur Hlífar Jóhannesson, Heiðmar Örn Björgvinsson, Hugi Elmarsson, Jens Bragi Bergþórsson, Kári Brynjólfsson, Leó Friðriksson, Magnús Dagur Jónatansson, Óskar Þórarinsson, Úlfar Guðbjargarson, Þormar Sigurðsson og Ævar Ottó Arnarsson.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is