KA/Þór knúði fram stig gegn toppliðinu

Handbolti
KA/Þór knúði fram stig gegn toppliðinu
Frábær karakter skilaði stigi (mynd: Egill Bjarni)

KA/Þór sótti topplið Vals heim í Olísdeild kvenna í handboltanum í kvöld en fyrir leikinn munaði einungis einu stigi á liðunum. Það var því ansi mikið undir og margir sem höfðu beðið spenntir eftir baráttu liðanna.

Leikurinn var hnífjafn frá upphafi til enda og var munurinn á liðunum nær ávallt eitt mark. Stelpurnar okkar leiddu í upphafi en eltu svo sterkt lið Vals það sem eftir var af leiknum. Staðan var jöfn 11-11 þegar flautað var til hálfleiks og spennan í algleymingi.

Síðari hálfleikurinn hófst rétt eins og sá fyrri, aftur náðu stelpurnar að leiða í upphafi en svo tók Valur forystuna. Staðan var 22-20 fyrir Val er sex mínútur lifðu leiks en eins og svo oft áður gáfu stelpurnar ekkert eftir og jöfnuðu metin í 22-22.

Lokakaflinn var svo háspenna lífspenna og fengu stelpurnar meðal annars möguleika á að komast yfir en misstu boltann og Valur refsaði með marki og komst í 23-22. En enn og aftur tókst að jafna metin og að lokum rann lokasókn Vals út í sandinn og jafntefli því niðurstaðan.

Það er gríðarlega sterkt hjá stelpunum að sækja stig á heimavelli Vals en Valur er með frábært lið og að auki vantaði í okkar lið en þrátt fyrir það steig liðið upp í heild sinni og tryggði frábær úrslit.

Rut Jónsdóttir átti enn einn stórleikinn og gerði 9 mörk (þar af 6 úr vítum) og skapaði mikið fyrir aðra. Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir kom inn í vinstra hornið og átti flotta innkomu þar sem hún gerði 4 mörk rétt eins og Ásdís Guðmundsdóttir á línunni. Aldís Ásta Heimisdóttir gerði þrjú mörk á miðjunni og fiskaði auk þess þrjú vítaköst. Hulda Bryndís Tryggvadóttir gerði 2 mörk og Anna Þyrí Halldórsdóttir eitt mark. Í markinu varði Matea Lonac 7 skot og Sunna Guðrún Pétursdóttir varði eitt.

KA/Þór er því áfram aðeins einu stigi á eftir toppliði Vals eftir sex umferðir og fær annað verðugt verkefni á laugardaginn þegar Fram mætir norður. Þarna mætast liðin sem börðust um Bikarmeistaratitilinn og Meistarar Meistaranna á síðasta ári og handboltaveisla framundan.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is