KA/Þór lagði HK á lokasekúndunni

Handbolti
KA/Þór lagði HK á lokasekúndunni
Úrslitakeppnisdraumurinn lifir! (mynd: EBF)

KA/Þór sótti HK heim í kvöld í 16. umferð Olís deildar kvenna en með sigri gat okkar lið jafnað ÍBV í 4. sæti deildarinnar sem gefur einmitt þátttökurétt í úrslitakeppninni að deildarkeppninni lokinni. Lið HK er hinsvegar að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og mátti því búast við hörkuleik sem úr varð.

Stelpurnar hófu leikinn af krafti og gerðu fyrstu þrjú mörk leiksins. Í kjölfarið leiddi okkar lið allan fyrri hálfleikinn og var munurinn á liðunum 2-4 mörk. Miklu meiri hraði og betri sóknarleikur einkenndi leik kvöldsins miðað við fyrri viðureignir liðanna en hálfleikstölur voru 14-16.

Síðari hálfleikur virtist ætla að spilast álíka þeim fyrri en í stöðunni 16-19 kom sterkur kafli hjá heimastúlkum sem breyttu stöðunni í 22-21 og var jafnt á næstu tölum og mikil spenna í leiknum. Aftur náðu stelpurnar þó forystunni og virtust ætla að hafa þetta þar sem þær leiddu með tveimur mörkum.

En lið HK gafst ekki upp og þær jöfnuðu metin í 28-28 og Jonni tók leikhlé er 11 sekúndur lifðu leiks. Lokasóknin var beinskeitt og góð sem endaði með skoti frá Sólveigu Láru Kristjánsdóttur sem endaði í netinu og gríðarlega sætur 28-29 sigur staðreynd.

Það hefði verið ótrúlega fúlt að fá ekki tvö stig úr leiknum í kvöld enda leiddu stelpurnar leikinn nær allan tímann og að manni fannst vera betra liðið. En það býr töluvert í liði HK og það þarf fulla einbeitingu til að klára þær.

Eftir sigurinn í kvöld er KA/Þór alls 10 stigum fyrir ofan HK og áframhaldandi vera í deild þeirra bestu tryggð. Á sama tíma jafnaði liðið ÍBV sem situr í 4. sætinu en ÍBV er fyrir ofan á innbyrðisviðureignum. Fimm umferðir eru eftir af deildinni og því næg tækifæri eftir til að reyna að lyfta sér inn í úrslitakeppnina.

Mörk KA/Þórs: Martha Hermannsdóttir 8 (þar af 3 úr vítum), Sólveig Lára Kristjánsdóttir 7, Aldís Ásta Heimisdóttir 5, Ásdís Guðmundsdóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Katrín Vilhjálmsdóttir 1 og Ólöf Marín Hlynsdóttir 1 mark.

Olgica Andrijasevic varði 11 skot í markinu sem gerir um 29% vörslu en Ólöf Maren Bjarnadóttir reyndi við eitt vítakast en tókst ekki að verja.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is