KA/Þór sækir FH heim kl. 18:00

Handbolti

Baráttan heldur áfram í Olís deild kvenna í dag þegar KA/Þór sækir FH heim í Kaplakrika klukkan 18:00. Stelpurnar töpuðu síðasta leik og eru staðráðnar í að koma sér beint aftur á beinu brautina með sigri gegn baráttuglöðu liði FH.

Stelpurnar urðu Meistarar Meistaranna í upphafi vetrar með glæsilegum sigri á Fram, í kjölfarið náðu þær í gott stig gegn ÍBV í Vestmannaeyjum en tapið gegn Stjörnunni á heimavelli í síðustu umferð var erfiður biti að kyngja og ekki spurning að liðið mun svara fyrir það í dag.

FH er nýliði í deildinni og er án stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar. Liðið tapaði þó aðeins með einu marki gegn Haukum í síðasta leik og alveg klárt að FH er mætt af krafti inn í deildina.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á leikinn en fyrir þá sem ekki komast verður hann í beinni á YouTube rás FH handbolta, áfram KA/Þór!

FH handbolti í beinni


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is