KA/Þór sækir Fram heim í kvöld

Handbolti
KA/Þór sækir Fram heim í kvöld
Krefjandi verkefni hjá stelpunum í kvöld

Baráttan heldur áfram í Olís deild kvenna í handboltanum í kvöld þegar KA/Þór sækir Íslandsmeistara Fram heim í kvöld klukkan 19:00. Þetta er síðasti leikurinn í annarri umferð deildarinnar en leikin er þreföld umferð og verður leikjaplan þriðju umferðar raðað upp eftir úrslit kvöldsins.

Þetta er önnur viðureign liðanna í vetur en KA/Þór kom mörgum á óvart þegar liðið vann magnaðan 24-23 sigur í KA-Heimilinu. Þessi úrslit eru ein af lykilatriðunum bakvið þá staðreynd að stelpurnar eru sex stigum fyrir ofan 7. sætið og staðan því ansi vænleg fyrir okkar lið þegar átta leikir eru eftir af deildinni.

Heimastúlkur í Fram eru hinsvegar í 2. sæti deildarinnar aðeins tveimur stigum frá toppliði Vals og má ætla að þær hyggi á hefndir frá fyrri leiknum nú í kvöld. Fram er með gríðarlega sterkt lið sem er ákaflega erfitt heim að sækja.

Verkefni kvöldsins er því ansi krefjandi en við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta í Safamýrina í kvöld og styðja okkar frábæra lið til sigurs. Fyrir ykkur sem ekki komist þá verður leikurinn í beinni á Fram-TV og má nálgast útsendinguna hér fyrir neðan.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is