KA/Þór sló Selfyssinga úr bikarnum

Handbolti
KA/Þór sló Selfyssinga úr bikarnum
Gleðin skein af stelpunum að leik loknum!

KA/Þór hóf leik í Coca-Cola bikarnum í kvöld er liðið sótti Selfyssinga heim í 16-liða úrslitum keppninnar. KA/Þór hefur farið vel af stað í Olís deildinni í vetur en heimakonur eru í toppbaráttunni í Grill 66 deildinni. Það var því frekar snúið að ráða í leikinn áður en leikar hófust.

Enda kom það strax í ljós að stelpurnar voru klárar í slaginn og sýndu heimaliðinu enga miskunn. Staðan var orðin 1-6 eftir fyrstu tíu mínuturnar og í kjölfarið hélst 4-5 marka munur á liðunum. Að fyrri hálfleik loknum var staðan 9-13 og allt útlit fyrir nokkuð þægilegan sigur okkar liðs.

Stelpurnar juku svo við forskotið í upphafi síðari hálfleiks og gáfu Selfyssingum nákvæmlega ekkert færi á að koma sér aftur í leikinn. Heimastúlkum tókst þó að minnka muninn niður í fjögur mörk en nær komust þær ekki og undir lokin keyrði KA/Þór liðið yfir leikinn og vann að lokum afar sannfærandi 21-29 sigur.

Rakel Sara Elvarsdóttir, Katrín Vilhjálmsdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadóttir voru markahæstar í okkar liði með 5 mörk hver, Ásdís Guðmundsdóttir gerði 4, Ásdís Sigurðardóttir 3, Martha Hermannsdóttir 2, Martina Corkovic 2, Aldís Ásta Heimisdóttir 1, Svala Björk Svavarsdóttir 1 og Matea Lonac gerði 1 mark. Auk þess varði Matea alls 17 skot í leiknum þar af tvö vítaköst.

Sæti í 8-liða úrslitum er því tryggt en auk okkar liðs eru Fram, HK, Fjölnir, ÍR og Valur komin í næstu umferð. Það ræðst svo á næstu dögum hvort Víkingur, FH, Haukar eða ÍBV bætast við hópinn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is