KA vann bæjarslaginn og áfram í bikarnum

Handbolti
KA vann bæjarslaginn og áfram í bikarnum
Strákarnir fögnuðu sigrinum vel og innilega!

Einn af leikjum ársins fór fram í kvöld er KA og Þór mættust í 32-liða úrslitum Coca-Cola bikars karla í handboltanum í Íþróttahöllinni. Þetta var fyrsta bikarviðureign liðanna frá árinu 1998 og má vægast sagt segja að bæjarbúar hafi beðið spenntir eftir leiknum.

Nágrannaslagir KA og Þórs verða iðulega gríðarlega jafnir og spennandi leikir þar sem hart er barist og það varð heldur betur raunin í kvöld. Þórsarar fóru betur af stað og leiddu í fyrri hálfleiknum. Í stöðunni 6-3 fengu þeir dauðafæri á að komast fjórum mörkum yfir en brenndu af og KA svaraði með þremur mörkum og leikurinn aftur jafn.

Skömmu fyrir leikhlé voru Þórsarar aftur komnir þremur mörkum yfir í 13-10 en endaspretturinn var okkar og hálfleikstölur 14-13. Strákunum gekk illa að stöðva þá Igor Kopyshynskyi og Karolis Stropus sem fóru fyrir sóknarleik Þórsara en bæði var varnarleikurinn ekki nægilega öflugur og þá gekk þeim Nicholas og Svavari illa að klukka boltann í rammanum.

En sama var uppi á teningunum hinum megin á vellinum og var aðeins eitt varið skot hjá Þórsurum í fyrri hálfleik og munurinn því einungis eitt mark þrátt fyrir að strákarnir hafi oft sýnt betri sóknarleik.

Það var hinsvegar annað að sjá til okkar liðs í síðari hálfleik og ljóst að taugar KA manna róuðust ögn er strákarnir tóku völdin og leiddu leikinn. Aldrei voru Þórsarar þó langt undan en síðasta kortérið tókst þeim aldrei að jafna metin.

Strákarnir stóðust þar með pressuna og lönduðu að lokum gríðarlega sætum 23-26 sigri og fara því áfram í 16-liða úrslit bikarkeppninnar á kostnað nágranna sinna. Mikill fögnuður braust út í leikslok enda montrétturinn í bænum einnig tryggður fram að næsta bæjarslag.

Þetta var alls ekki besti leikur strákanna í vetur en leikir við Þór eru af allt öðrum toga en aðrir leikir og því viðbúið að hlutirnir færu eins og þeir spiluðust. Aðalatriðið er að sigurinn er okkar og við getum farið glaðir inn í erfiðan útileik gegn ÍBV á sunnudaginn.

Árni Bragi Eyjólfsson og Áki Egilsnes voru markahæstir í KA liðinu með 7 mörk hvor. Ólafur Gústafsson gerði 4 mörk, Andri Snær Stefánsson 3, Jón Heiðar Sigurðsson 2 og þeir Sigþór Gunnar Jónsson, Patrekur Stefánsson og Einar Birgir Stefánsson gerðu allir eitt mark. Í markinu varði Nicholas Satchwell 7 skot, Svavar Ingi Sigmundsson náði ekki að klukka bolta en átti magnaða stoðsendingu yfir völlinn undir lok fyrri hálfleiks.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is