KA vann fyrsta leikinn í viðureign sinni gegn HK um laust sæti í Olís deildinni þegar liðin mættust í KA-Heimilinu í dag. Leikurinn var jafn og spennandi en KA hafði frumkvæðið mestallan leikinn og vann á endanum 24-20 sigur og leiðir því einvígið 1-0. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í deild þeirra bestu.
Það var ekki að sjá að KA liðið hefði ekki spilað keppnisleik í að verða mánuð því menn mættu vel stemmdir til leiks og KA leiddi á upphafsmínútum leiksins. HK liðið er þó nýbúið að slá út Þrótt í umspilinu og voru þeir aldrei langt undan.
Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður tókst gestunum að sveifla leiknum og náðu á tímabili tveggja marka forystu. Þá small KA vörnin aftur í gír og lokakaflinn í fyrri hálfleik var gulur. Hálfleikstölur voru 12-10 fyrir KA og ljóst að sama spenna yrði áfram í síðari hálfleiknum.
Flott spilamennska KA liðsins hélt áfram í upphafi síðari hálfleiks og náði liðið fljótlega fjögurra marka forystu sem gestunum gekk illa að brúa. Í stöðunni 21-17 fyrir KA gekk liðunum ansi erfiðlega að skora og liðu tæplega 10 mínútur áður en gestirnir komust aftur á bragðið og minnkuðu í kjölfarið muninn í 21-19.
Áki Egilsnes fór á kostum í leiknum og skoraði 10 mörk.
Smelltu á myndina til að sjá fjölmargar myndir Hannesar Péturssonar frá leiknum.
En það býr mikill karakter í KA liðinu auk þess sem að stemningin í KA-Heimilinu var góð og það fór svo að KA sigldi inn góðum 24-20 sigri og varði þar með heimaleikjaréttinn sem liðið hefur í einvíginu.
Mörk KA: Áki Egilsnes 10, Sigþór Árni Heimisson 4, Jón Heiðar Sigurðsson 3, Daði Jónsson 2 , Sigþór Gunnar Jónsson 2, Andri Snær Stefánsson 1, Heimir Örn Árnason 1 og Ólafur Jóhann Magnússon 1 mark.
Í markinu varði Jovan Kukobat 14 skot, Svavar Ingi Sigmundsson kom inná og reyndi við eitt vítakast.
Mörk HK: Kristján Ottó Hjálmsson 6, Svavar Kári Grétarsson 4, Elías Björgvin Sigurðsson 3, Ingi Rafn Róbertsson 3, Bjarki Finnbogason 2, Friðgeir Elí Jónasson 1 og Pálmi Fannar Sigurðsson 1.
Markverðir HK vörðu samtals 12 skot.
Að sjálfsögðu var leikurinn í beinni útsendingu á KA-TV og hægt að horfa á leikinn í spilaranum hér að neðan.
Næsti leikur er á þriðjudaginn klukkan 19:30 í Digranesi og verður KA-TV með leikinn í beinni fyrir þá sem ekki komast í Kópavoginn. Það er ljóst að þetta einvígi verður stál í stál og það má áfram búast við hörkuslag í næstu leikjum liðanna.