KA/Þór mætir Víkingum í Eimskipsbikarnum á miðvikudaginn

Meistaraflokkur KA/Þór hefur í nógu að snúast þessa dagana. Á miðvikudaginn klukkan 17:30 er komið að fyrsta leiknum í Eimskipsbikarnum en þá kemur Víkingsliðið í heimsókn. Bæði liðin komu til leiks í efstu deild á þessu tímabili og er líkt á komið með liðunum sem eru enn án stiga í deildinni. Það má því reikna með hörkuleik þar sem bæði lið hungrar í að vinna sinn fyrsta sigur á tímabilinu.

KA/Þór og Víkingar léku til úrslita um efsta sæti 2. deildar í fyrra og fór leikurinn fram á Blönduósi og þar fóru Víkingsstelpur með eins marks sigur í hörkuleik.

KA/Þór gerðu góða hluti í bikarnum í fyrra þegar þær slógu út úrvalsdeildarlið Gróttu í fyrstu umferð og því ástæða til að hvetja alla stuðningsmenn KA/Þór til að fjölmenna  á leikinn og leggja stelpunum lið.

Þess má svo geta að á laugardaginn mætast liðin svo aftur en þá í N1-deildinni og verður þá leikið í Víkinni .

Skoðum að vanda hvað sagt er um andstæðingana, Víkinga í N1-blaðinu.

Víkingar eru mættir til leiks í N1-deild kvenna að nýju, en stúlkurnar úr Stjörnugrófinni hafa ekki leikið í efstu deild síðan 2006. Þetta forna stórveldi, sem hreinlega sópaði til sín bikurum fyrir fáeinum árum, lagðist í dvala eftir nokkuð rýra uppskeru, árin áður en liðið fór niður í 2.deild fyrir þremur árum voru Víkingar að dóla fyrir neðan miðja deild og jafnvel við botninn. Nú hefur stefnan hins vegar verið sett á að byggja upp sterkt Víkingslið að nýju. Það verður þó ekki gert í neinu óðagoti, Víkingar ætla ekki að slá mikið um sig og komandi tímabil verður notað til þess fyrst og síðast að öðlast reynslu og læra. Víkingar eru raunsæir og gera sér ekki miklar vonir um glæstan árangur í vetur, en vonast til þess að lærdómurinn og reynslan skili sér þegar til lengri tíma er litið.

Góð blanda af leikmönnum

„Þetta er blanda af eldri og yngri leikmönnum“, segir Daniel Mueller, þjálfari Víkings um hópinn sem hann hefur í höndunum í vetur. „Við ákváðum að slá í klárinn og skella okkur í baráttuna í efstu deild og við erum hreinlega að sækja okkur reynslu. Við ákváðum að demba okkur í þetta, í og með til þess að halda lífi í deildinni hjá okkur og missa ekki frá okkur efnilega leikmenn.“

Daniel, sem er Þjóðverji, hefur verið hér á landi um nokkurt skeið, kom hingað fyrst til að aðstoða Aðalstein Eyjólfsson hjá Fylki, og hann þekkir því ágætlega til í N1-deild kvenna.

„Ég þekki liðin ágætlega og það verður bara að viðurkennast að toppliðin eru í allt öðrum gæðaflokki heldur en við. Við erum ekki að fara að blanda okkur í baráttuna í efri hlutanum, það er alveg ljóst. Við ætlum að læra og öðlast reynslu, við gerum ekki miklar breytingar frá því í fyrra en það sem stelpurnar þurfa t.d. að læra að eiga við er að í þessari deild er manni refsað fyrir að gera mistök. Mistök í sókninni kosta oftast það að maður fær á sig hraðaupphlaup, svona sem dæmi, og við þurfum að fækka mistökunum sem við höfum verið að gera í leikjum okkar, sérstaklega í sókninni. Við sáum þetta ansi vel á Reykjavíkurmótinu.

Við erum með nokkra unga og efnilega leikmenn, tvær eða þrjár þeirra jafnvel verða að teljast mjög efnilegar og þetta verður mikið ævintýri“, segir Daniel.

„Þetta verður fjögurra liða barátta“, segir Víkingsþjálfarinn þegar hann er beðinn um að setja sig í spámannsstellingar fyrir veturinn. „Stjarnan, Valur, Fram og Haukar berjast um fjögur efstu sætin, FH kemur þar á eftir og gæti jafnvel strítt efstu liðunum eitthvað. HK, Fylkir, Þór/KA og við í Víkingi verðum svo í hópi þar á eftir og það væri í sjálfu sér sigur fyrir okkur að vinna tvo eða þrjá leiki. Þetta verður mjög lærdómsríkt í vetur“, segir Daniel Mueller, þjálfari Víkings.

Sérfræðingurinn segir...

Um liðið: Víkingar ákváðu að stökkva út í djúpu laugina og taka þátt í efstu deild. Þetta er djörf ákvörðun því unglingafokkur félagsins hefur ekki verið upp á marga fiska undanfarin ár. Einhvers staðar verður jú að byrja, en ég er hræddur um að þetta ár eigi eftir að reynast Víkingsliðinu erfður og harður skóli.

Styrkleikar: Víkingsstelpur verða að finna styrk í samstöðu og leikgleði. Liðið verður að einbeita sér að því að æfa vel og bæta leik sinn jafnt og þétt. Þær eiga möguleika gegn lakari liðum deildarinnar en tapa væntanlega festum sínum leikjum stórt.

Veikleikar: Óreyndur og ungur leikmannahópur. Enginn afgerandi leikmaður.

Lykilleikmaður: Hópurinn í heild sinni.