Karaktersstig í Garðabænum hjá KA/Þór

Handbolti
Karaktersstig í Garðabænum hjá KA/Þór
Olgica átti stórleik (mynd: Þórir Tryggva)

Það var ansi mikilvægur leikur hjá KA/Þór í kvöld er liðið sótti Stjörnuna heim í 12. umferð Olís deildar kvenna. Um var að ræða sannkallaðan fjögurra stiga leik en liðin voru í 5. og 6. sæti deildarinnar og munaði einungis tveimur stigum á þeim.

KA/Þór lék frábærlega í síðustu umferð en því miður kom liðið alls ekki nægilega vel stemmt í leik kvöldsins. Sóknarmistökin voru alltof mörg og varnarleikurinn götóttur, sem betur fer var Olgica Andrijasevic í stuði í marki KA/Þórs og varði eins og berserkur. Lið Stjörnunnar leiddi leikinn en okkar lið var þó ekki langt á eftir og leikurinn var í járnum fyrri hluta hálfleiksins.

Í stöðunni 8-7 snerist leikurinn og heimastúlkur fóru að finna leiðina framhjá Olgu í markinu. Í kjölfarið skoruðu þær næstu fjögur mörk og leiddu svo í hálfleik 13-8. Spilamennska okkar liðs langt í frá nægilega góð og líklega í fyrsta skiptið sem maður hefur séð slíka frammistöðu hjá stelpunum.

En byrjunin á síðari hálfleik var hinsvegar algjörlega til fyrirmyndar, Stjarnan skoraði ekki mark fyrstu 11 mínúturnar og stelpurnar löguðu stöðuna í 13-12. Í kjölfarið var leikurinn aftur jafn og spennandi en áfram leiddu heimastúlkur með 1-2 mörkum.

Áfram héldu stelpurnar að þjarma að liði Stjörnunnar og þær jöfnuðu metin í 17-17 eftir 51 mínútna leik. Stuttu síðar vannst boltinn og Ásdís Guðmundsdóttir kom liðinu svo yfir í fyrsta skiptið í leiknum í stöðunni 17-18. Stjarnan svaraði með tveimur mörkum í röð en Hulda Bryndís jafnaði í 19-19 er tæpar fjórar mínútur lifðu leiks.

Spennan í algleymingi, liðin skoruðu til skiptis og áfram var jafnt 20-20 og 21-21. Er 28 sekúndur voru eftir var Stjarnan með boltann og tók leikhlé. Heimastúlkur fóru í skot fyrir utan en Olga varði vel, Stjarnan fékk innkast og uppúr því vörðu stelpurnar í hávörn og tryggðu gott stig eftir vægast sagt erfiðan leik.

Olgica Andrijasevic var frábær í leiknum en hún varði 18 skot í markinu en Martha Hermannsdóttir stóð einnig vel fyrir sínu og gerði 7 mörk. Gríðarlega jákvætt að fá stig úr leiknum enda má klárlega setja ýmislegt út á spilamennskuna í kvöld en flottur karakter að halda áfram og sækja stigið.

Stelpurnar halda því 5. sætinu og eru komnar í 11 stig og eru með innbyrðisviðureignir á Stjörnuliðið nú þegar 9 umferðir eru eftir af deildinni.

Mörk KA/Þórs: Martha Hermannsdóttir 7 mörk (2 úr vítum), Hulda Bryndís Tryggvadóttir 5, Katrín Vilhjálmsdóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir og Sólveig Lára Kristjánsdóttir 2, Ásdís Guðmundsdóttir og Aldís Ásta Heimisdóttir 1 mark hvor.

Næsti leikur er einnig gríðarlega jákvæður en það er heimaleikur gegn HK sem er í 7. sætinu og aðeins fjórum stigum á eftir okkar liði. Það er því klárt mál að við þurfum að fjölmenna í stúkuna og styðja stelpurnar til sigurs í þeim leik.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is