FH – Akureyri (leikur 2), heimaleikur á sunnudag

Úrslitaeinvígi Akureyrar og FH heldur áfram í kvöld klukkan 20:15 en að þessu sinni verður leikið í Kaplakrika, heimavelli FH. Akureyrarliðið er staðráðið í að jafna stöðuna í einvíginu og hvetjum við alla stuðningsmenn sem verða staddir í nágrenni Hafnarfjarðar til að fjölmenna á leikinn og taka virkan þátt í baráttunni.

„Það er fín stemmning í hópnum hjá okkur. Við erum búnir að fara yfir leikinn á þriðjudaginn og við látum þetta tap ekkert á okkur fá. Það er fullt eftir ennþá og við ætlum að halda áfram á fullum krafti,“
segir Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar í viðtali við Vikudag.


„Það var ekkert auðvelt að rífa menn upp en við sáum það að við vorum ekki að spila vel og við eigum heilmikið inni en náðum samt að hanga í þeim. Með því sýndum við að við eigum fullt erindi í þessa rimmu. Við þurfum hins vegar að fá sóknarleikinn betur í gang í kvöld.“

Mikið fjölmiðlafár hefur verið í kringum rauða spjaldið sem Guðmundur Hólmar Helgason leikmaður Akureyrar fékk á lokasekúndum í leiknum á þriðjudaginn. Ýmsir hafa verið stórorðir og fullyrt að Guðmundur hefði átt að fá leikbann en þeim verður ekki að ósk sinni og Guðmundur verður með í kvöld. Atli segir allt þetta fár ekki trufla þá fyrir leikinn í kvöld.
„Alls ekki. Þetta er bara hluti af þessu og við leiðum þetta algjörlega framhjá okkur,“ segir hann.

Leikurinn verður í beinni útsendingu RÚV en fyrir þá sem verða í Kaplakrika þá skal bent á að stuðningsmönnum Akureyrar er ætlað að ganga til sæta í stúkunni vinstra megin þegar gengið er í salinn.

Þriðji leikurinn er í Höllinni á sunnudaginn, 1. maí klukkan 16:00

Í leiðinni minnum við á að þriðji leikurinn verður í Íþróttahöllinni á Akureyri klukkan 16:00, sunnudaginn 1. maí og ljóst að það er lykilleikur í einvíginu og af honum má enginn missa.

Ef einhverntíma var ástæða til að mæta í Höllina þá er það á sunnudaginn, sá leikur verður klárlega stærsti leikur tímabilsins til þessa.