Leikur dagsins: HK og Akureyri í beinni á SportTV.is klukkan 18:30

Akureyrarliðið heldur í Kópavoginn í dag til að berjast við HK pilta. Þetta verður fjórða viðureign liðanna í vetur og þar af sú þriðja í Kópavogi. Akureyri vann fyrsta leik liðanna afar sannfærandi 29-41 í fyrstu umferð N1 deildarinnar.
Liðin mættust nokkrum dögum seinna á sama stað í bikarkeppninni og varð sá leikur vægast sagt rafmagnaður en Akureyri vann með einu marki 28-29.

Liðin mættust síðast hér í Íþróttahöllinni þann 25. nóvember og þar varð enn á ný háspennuleikur þar sem Akureyri fór aftur með eins marks sigur, 32-31.

Það má því gera ráð fyrir að leikur liðanna íkvöld verði líkt og hinir af hæsta spennustigi enda bæði liðin í hörkukeppni. Með sigri myndi Akureyri tryggja sér deildarmeistaratitilinn en HK má ekkert slaka á til að halda sæti sínu meðal fjögurra efstu og þar með tryggja sig inn í úrslitakeppnina.

Við efumst ekki um að fjölmargir stuðningsmenn Akureyrar á höfuðborgarsvæðinu munu flykkjast á leikinn og styðja dyggilega við bakið á sínum mönnum.

Fyrir þá sem ekki komast á leikinn getum við fært þær ánægjulegu fréttir að leikurinn verður í beinni útsendingu á SportTV.is og hefst klukkan 18:30 í dag.

Smelltu hér til að horfa á leikinn.