Lukkudísirnar voru ekki með KA/Þór í dag

KA/Þór tóku á móti FH í dag í N1 deild kvenna. Fyrirfram áttu menn von á því að heimastúlkur ættu góða möguleika á hagstæðum úrslitum.  FH liðið var þó greinilega ekki á þeim buxunum og byrjuðu leikinn af miklum krafti. Um miðjan fyrri hálfleikinn höfðu þær náð sex marka forystu 13-7.

Þá kviknaði á heimastúlkum, Selma varði vítakast og allur annar bragur á liðinu. Stelpurnar minnkuðu muninn niður í þrjú mörk og hélst sá munur út hálfleikinn en staðan var 19-16 í hálfleik.

KA/Þór náði ekki að halda sama krafti áfram og FH jók muninn að nýju. KA/Þór klóruðu í bakkann en virtust ekki hafa alveg trú á verkefninu. Ásdís Sigurðardóttir var tekin úr umferð allan seinni hálfleikinn og varð sóknarleikurinn oft hálf vandræðalegur. Undir lokin virtist komin uppgjöf í liðið, FH gekk á lagið og fór með óþarflega stóran sigur 39-30.


Ásdís var í strangri gæslu í dag

Martha Hermannsdóttir og Emma Havin voru yfirburðaleikmenn hjá KA/Þór en það dugði bara ekki. Fyrst og fremst var það varnarleikurinn sem varð liðinu að falli í dag en línumenn FH fengu að leika lausum hala og nýttu það vel en heimastelpum tókst hins vegar ekki að nýta línuna eins vel.

Markvarslan var lítil til að byrja með en Selma hrökk í gang um miðjan fyrri hálfleikinn og varði um tíu skot, þar af eitt vítakast. Lovísa kom í markið undir lokin en náði sér ekki á strik, þó með 2 skot varin.

Mörk KA/Þór: Emma Havin Sardardóttir 8, Martha Hermannsdóttir 8, Arna Erlingsdóttir 6, Ásdís Sigurðardóttir 3, Inga Dís Sigurðardóttir 3, Katrín Vilhjálmsdóttir 1 og Unnur Ómarsdóttir 1 mark.

Hjá FH var Ragnhildur Rósa Guðmundsdóttir atkvæðamest með 11 mörk, Birna Íris Helgadóttir skoraði 7, Berglind Ó Björgvinsdóttir 6, Birna Berg Haraldsdóttir 5 og aðrar minna. Jolanta Slapikene stóð í markinu allan tímann og varði 15 skot.

Næsti leikur KA/Þór er laugardaginn 12.desember gegn Fylki í Fylkishöllinni.