Lydía fór á kostum með U16

Handbolti
Lydía fór á kostum með U16
Frábær fulltrúi KA/Þórs í hópnum!

Lydía Gunnþórsdóttir leikmaður KA/Þórs fór á kostum með U16 ára landsliði Íslands í handbolta sem lék á European Open í Gautaborg síðustu daga. Stelpurnar stóðu sig vel á mótinu og hófu leikinn á stórkostlegri frammistöðu gegn sterku liði Noregs.

Íslenska liðið leiddi lengst af í fyrri hálfleik gegn Norðmönnum en lið Noregs náði að jafna í 10-10 sem voru hálfleikstölur. Aftur voru það íslensku stelpurnar sem höfðu frumkvæðið í þeim síðari og leiddu með fjórum mörkum um miðbik hálfleiksins. En aftur tókst þeim norsku að koma til baka og þær knúðu fram 20-20 jafntefli. Lydía átti mjög góðan leik og var markahæst í íslenska liðinu með 7 mörk.

Lydía átti annan stórleik þegar stelpurnar mættu liði Portúgals og var aftur markahæst með 7 mörk. Það dugði þó því miður ekki en Portúgal vann 16-19 sigur eftir að hafa leitt 9-10 í hálfleik. Í kjölfarið töpuðu svo stelpurnar gegn Póllandi 12-21 eftir að hálfleikstölur voru 5-9.

Stelpurnar fóru því í keppni um 13.-17. sætið og þar mættu þær fyrst liði Eistlands. Íslenska liðið hreinlega kaffærði lið Eistlands en Ísland leiddi 16-9 í hálfleik og vann svo 27-10 stórsigur. Lydía gerði eitt mark í leiknum.

Því næst mætti íslenska liðið þeim færeysku í hörkuleik. Ísland leiddi 14-11 í hálfleik og vann svo 22-19 baráttusigur þar sem Lydía fór hamförum og gerði 11 mörk og var markahæst í íslenska liðinu.

Í lokaleiknum mættu stelpurnar svo Finnlandi og úr varð hörkuleikur. Finnar leiddu 13-14 í hálfleik en íslensku stelpurnar sneru leiknum sér ívil og unnu að lokum 24-23 sigur. Lydía skoraði 3 mörk í leiknum og getur heldur betur verið ánægð með sitt framlag á mótinu. 

Ísland lenti þar með í 13. sæti mótsins og mun mótið klárlega gefa stelpunum mikla og góða reynslu fyrir næstu verkefni. Það að vera hársbreidd frá því að leggja lið Noregs segir allt sem segja þarf um styrkleika liðsins og verður gaman að fylgjast með Lydíu og liðsfélögum hennar í komandi verkefnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is