Matea og Einar Rafn best í handboltanum

Handbolti

Handknattleiksdeild KA hélt lokahóf sitt á dögunum þar sem leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn og sjálfboðaliðar gerðu upp nýlokinn vetur. Breytingar eru framundan bæði hjá karlaliði KA og kvennaliði KA/Þórs og voru nokkrir mikilvægir einstaklingar heiðraðir fyrir þeirra framlag til handboltans.

Matea Lonac var kjörin besti leikmaður KA/Þórs á tímabilinu en Matea stóð fyrir sínu í rammanum eins og undanfarin ár. Hún var með eina bestu markvörsluna í deildinni og vel að því komin að vera besti leikmaður KA/Þór.

Einar Rafn Eiðsson var kjörinn besti leikmaður KA en Einar Rafn fór hamförum í vetur og varð markakóngur Olísdeildarinnar. Hann var í lykilhlutverki að tryggja ungu liði KA áframhaldandi veru í deild þeirra bestu og ansi vel að því að vera kjörinn besti leikmaður liðsins.

Ida Margrethe Hoberg var kjörin efnilegasti leikmaður KA/Þórs en þessi 19 ára gamla skytta sem gekk í raðir liðsins á miðju tímabili frá Danmörku kom eins og stormsveipur inn í liðið og vakti verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína.

Jens Bragi Bergþórsson var kjörinn efnilegasti leikmaður KA liðsins en þessi 16 ára gamli línumaður kom gríðarlega sterkur inn í lið meistaraflokks KA og sýndi og sannaði að hann er klár í baráttuna í deild þeirra bestu.

Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir var valin besti liðsfélaginn í KA/Þór en Kristín er gríðarlegur félagsmaður, er afar ósérhlífin og drífur liðsfélaga sína áfram í einu og öllu.

Hjá strákunum var Haraldur Bolli Heimisson valinn besti liðsfélaginn en Halli er klárlega klefakóngur liðsins og er auk þess afar duglegur að vinna í kringum liðið.

Andri Snær Stefánsson gaf út á dögunum að hann myndi ekki halda áfram þjálfun KA/Þórs eftir að hafa stýrt liðinu undanfarin þrjú ár og var hann heiðraður af stjórn liðsins. Erlingur Kristjánsson afhendir hér Andra mynd í þakkarskyni fyrir hans vinnu.

Það verða einnig þjálfarabreytingar hjá strákunum og var Jónatani Magnússyni þökkuð góð störf með liðið undanfarin ár. Jonni er að fara í afar spennandi verkefni í Svíþjóð og tekur þar við liði Skövde, óskum honum alls hins besta á nýjum vettvangi.

Dagur Gautason mun yfirgefa KA liðið og tekur nú ansi spennandi skref og reynir fyrir sér í atvinnumennsku. Nánar um það skref á næstu dögum en Dagur átti frábæran vetur með KA liðinu og verður gaman að fylgjast með honum á næsta stigi ferilsins.

Færeyingarnir Nicholas Satchwell og Allan Norðberg eru að kveðja liðið en Allan var ekki viðstaddur lokahófið. Báðir hafa þeir leikið með liðinu undanfarin ár og komið gríðarlega sterkir inn í starfið og þökkum við þeim kærlega fyrir samstarfið og óskum þeim alls hins besta í framtíðinni.

Gauti Gunnarsson mun snúa aftur á heimaslóðir sínar með liði ÍBV en Gauti kom virkilega flottur inn í okkar lið í vetur og skoraði meðal annars 8 mörk þegar áframhaldandi vera í efstudeild var tryggð með sigri á Gróttu í lokaumferðinni.

Að lokum var yfirtrommara félagsins, Jóni Arnari Jónssyni, þakkað fyrir hans ómetanlega starf í kringum liðið en það er alveg sama hvenær leikið er og hvernig staðan er, Jón heldur alltaf áfram að stýra taktinum og köllunum í stúkunni. Hann er sem betur fer ekki á leið burt en fékk flotta liðstreyju að gjöf fyrir störf sín í vetur.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is