3. fl. kvenna: KA/Þór - Stjarnan

Leikurinn gegn Stjörnunni var nokkuð góður heilt yfir. Í byrjun leiks sýndu KA/Þór stelpur góðan leik og börðust vel í vörninni ásamt því að vera ákveðnar í sókninni. Nokkur klaufamistök urðu þó til þess að þegar fyrri hálfleik lauk var staðan jöfn, 13-13.

Í byrjun seinni hálfleiks náði Stjarnan tveggja marka forustu en heimastúlkur jöfnuðu þó fljótlega. Leikurinn var í járnum og jafnt á öllum tölum. Þegar þrjár mínútur voru eftir áttu KA/Þór stúlkur skot í innanverða þverslá og út. Stjörnustelpur fóru upp og komust í tveggja marka forustu. Stelpurnar reyndu hvað þær gátu til að jafna en því miður gekk það ekki upp í dag.

Leikurinn hefði getað fallið með okkar stúlkum í dag en því miður gekk það ekki upp og tveggja marka tap svekkjandi staðreynd.

Stelpurnar lögðu sig þó allar fram og gerðu sitt besta. Auðvitað var einhver þreyta í sumum þeirra frá deginum áður en þær létu það þó lítið á sig frá og börðust allt fram til loka leiks. Leikurinn sem slíkur var ágætur, baráttan til fyrirmyndar og kjarkinn vantaði ekki.

Stundum ganga hlutirnir upp og stundum ekki, í dag gengu þeir ekki upp. Hjartað var á réttum stað og erfitt að biðja um meira en það.

Mörk KA/Þórs: Arna Valgerður með 9, Kara Rún með 7, Unnur Ómarsdóttir með 4 og Jana Salóme með 4.