Meistaraflokkur kvenna fór suður um helgina til að spila sína fyrstu leiki í 2. deild. Það var ljóst að einhver forföll væru í hópnum. Nokkrar af þeim eldri komust ekki með suður þessa helgina, meðal annars var Lilja Þórisdóttir í rannsóknarferð í Svíþjóð. Það er skemmst frá því að segja að stelpurnar unnu báða leikina og eru því með fullt hús stiga í deildinni auk þess að vera komnar í 8 liða úrslit bikarkepninnar. Hér fylgir pistill um leiki helgarinnar.
Á laugardeginum áttu stúlkurnar leik við Víking en það lið inniheldur einmitt þrjá uppalda Akureyringa, þær Kristínu,
Nönnu og Mörtu.
Leikurinn byrjaði rólega hjá okkar stúlkum, Jafnt var á öllum tölum framan af en Víkingur ívið sterkari aðilinn. Vörn
KA/Þórs var döpur og þurftu Víkingar lítið að gera til að koma sér í opin færi.
Þegar liðið var á fyrri hálfleik skipti KA/Þór í framliggjandi vörn og náðu með því að slá Víkinga
örlítið út af laginu. Vörnin þéttist aðeins og Lovísa var virk fyrir aftan. Þó átti vörnin það til að opnast
auðveldlega en kannski í ljósi aðstæðna skiljanlegt. Fyrir það fyrsta er ennþá verið að þróa þessa framliggjandi
vörn og síðan eins og áður sagði eru gríðarlegir reynsluboltar í Víkingsliðinu og nýttu þær sér reynsluna til
fulls. Þó tókst KA/Þór með þessu að koma sér yfir og leiddu með tveimur mörkum í hálfleik.
Í seinni hálfleik var enn og aftur breytt um vörn og lagt upp með að loka fyrir línuspil Víkinga. Vörnin small ágætlega saman og
héldu KA/Þór stúlkur áfram að bæta við forskot sitt og unnu að lokum sannfærandi 7 marka sigur 22-29.
Víkingur er ágætlega mannað lið sem hefur feikna reynslubolta innanborðs. KA/Þór var í raun ekki að spila á fullri getu allan
tímann en gerðu það sem þær þurftu og kláruðu leikinn.
Mörk KA/Þórs:
Emma-9, Arna Valgerður -6, Unnur – 5, María – 3, Þórdís – 3, Steinþóra – 2, og Jana – 1.
Lovísa varði 18 skot, þar af tvö víti.
Á sunnudeginum var Fjölnir á dagskránni.
Stelpurnar voru staðráðnar í að spila betur heldur en á móti Víkingum og byrjuðu af krafti.
Leikurinn byrjaði virkilega vel og komst KA/Þór í 7-0 og leit allt út fyrir stórsigur KA/Þórs stúlkna. Þá small allt í
baklás. Aragrúi sóknarmistaka í bland við merkilegar ákvarðanir drógu allt bit úr sóknarleik KA/Þórs og allt lak í
gegnum kærulausa vörnina. Smám saman komust Fjölnis stelpur inn í leikinn og náðu að minnka í tvö mörk. Þá breyttu KA
stúlkur um gír í sókninni en varnarleikurinn var þó enn höfuðverkur. Ef ekki hefði verið fyrir stórleik Lovísu í
markinu og falleg mörk Örnu Valgerðar utan af velli hefði staðan eflaust verið mun verri, en KA/Þór leiddi með 4 mörkum í hálfleik,
12-8.
Eftir nokkur vel valin orð inn í búningsklefa mætti allt annað lið inn á völlinn í seinni hálfleik.
Sóknin gekk virkilega vel og vörnin sterk. Lovísa hélt uppteknum hætti í markinu og varði hvern boltann á fætur öðrum og
Þórdís nýtti sér hlaupahraða sinn til þess að stinga leikmenn Fjölnis af og skoraði mörg góð hraðaupphlaupsmörk fyrir
vikið.
Smám saman jókst forskot KA/Þórs og lokatölur 30-17 fyrir KA/Þór.
Mörk KA/Þórs:
Arna Valgerður – 7, Unnur – 6, Þórdís – 6, Emma - 5, Arndís – 3, Jana – 1, Arna Katrín – 1, Steinþóra
– 1,
Lovísa varði 22 bolta í markinu þar af eitt víti.
Þrátt fyrir hnökra í leik liðsins á köflum var árangurinn heilt yfir nokkuð góður. Nokkrar af þeim sem spiluðu um
helgina voru að taka fram skóna nú í vetur eftir mislanga pásu og komust þær nokkuð vel frá þessum leikjum. Erfitt er að taka
einhverjar út fyrir þessa leiki. Allar stóðu þær sig með ágætum heilt yfir. Þó er vert að nefna að Lovísa
stóð sig einkar vel í markinu í báðum leikjunum og var með rúmlega 50% markvörslu yfir helgina.